Hugar að hvíld fyrir lokaátökin

Leifur Örn [í miðjunni] ásamt ferðafélaga sínum Gyaljin [til hægri …
Leifur Örn [í miðjunni] ásamt ferðafélaga sínum Gyaljin [til hægri á myndinni]. Mynd fengin af bloggvef Leifs.

Fjallagarpurinn Leifur Örn Svavarsson, sem hyggst komast á topp Everest-fjalls, hefur nú lokið hæðaraðlögunni og „rétt að huga að hvíld til að vera heill og tilbúinn í átökin sem fylgja lokaatrennunni á fjallið,“ skrifar Leifur Örn á ferðabloggsíðu sína.

Ég var svolítið í vafa yfir því að það hafi vantað 400 hæðarmetra uppá að fylgja þeirri áætlun sem ég var með en hópstjórinn sem leitt hefur 9 leiðangra á fjallið fannst það hálf hjákátlegt. Hann taldi það mikilvægara að mér hafi liðið vel í hæðinni og að vel hafi gengið bæði í klifrinu upp í norðurskarð og eftir hryggnum þannig að ég læt hér við sitja og fer að hans ráðum og held niður á við. Það er dágott erfiði sem fylgir göngunni niður í grunnbúðir. 22 km um torfarnar jökulurðir niður í 5.200 metra,“ skrifar Leifur Örn.

Þá segir hann, að það sé yndislegt að finna fyrir því hvað það hlýni á leiðinni niður, þar sem farið sé úr frosti yfir í hlýja sólargeisla. 

Hann tekur fram að ekki verði numið staðar við grunnbúðirnar að þessu sinni. Nú sé stefnt á ökuferð í heilan dag til að komast í enn þykkara loftslag í Tingri, en þar hófst hæðaraðlögunin í upphafi ferðar.

Leifur Örn segir að þessi hluti ferðarinnar sé jafn mikilvægur og hver annar varðandi undirbúning fyrir endanlegt markmið ferðarinnar. Í Tingri geti menn endurhlaðið rafhlöðurnar fyrir lokaátökin.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert