Íslendingar skutu eldflaug á loft

Darri Kristmundsson og Ólafía Lárusdóttir eru meistaranemar við Konunglega tækniháskólann …
Darri Kristmundsson og Ólafía Lárusdóttir eru meistaranemar við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi.

Íslenskum meistaranemum við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi í Svíþjóð gekk vel að skjóta eldflaug á loft í tilraunaskyni í síðustu viku. Eldflaugaskotið átti sér stað frá geimskotsstöðinni í Kiruna í norðurhluta Svíþjóðar sl. fimmtudag.

Tilgangur tilraunarinnar var að mæla hitastig lofthjúpsins á annan hátt en áður hefur verið gert.

Darri Kristmundsson og Ólafía Lárusdóttir fóru fyrir tilrauninni en alls komu 13 nemendur að henni. Verkefnið nefnist MUSCAT og er eitt þriggja sem voru valin til að fara á loft með eldflauginni.

„Þetta er eldflaug sem er á vegum evrópsku geimvísindastofnunarinnar og háskólanemum gefst tækifæri á því að taka þátt,“ sagði Darri í samtali við Morgunblaðið nýverið.

Darri nemur geimverkfræði og veit einungis til þess að einn annar Íslendingur hafi numið slík fræði. Ólafía nemur rafmagnsverkfræði. „Hugmyndin byrjaði hjá prófessornum og hann auglýsti verkefnið fyrir alla í skólanum. Við sáum auglýsinguna og slógum til,“ sagði Ólafía.

Þær eldflaugatilraunir sem eru gerðar í Kiruna eru allar í friðsamlegum tilgangi en mótor eldflaugarinnar er að sögn Darra úr gömlu bandarísku flugskeyti. Er hann notaður þar sem hann hefur mikla hröðun og mun flaugin fara í 80-90 kílómetra hæð. Eftir að flauginni verður skotið á loft fer á loft þyrla sem mun ná í tilraunir nemendanna sem munu dreifast yfir um 10 ferkílómetra svæði. Mæling á hitastiginu fer fram í gegnum kúlulaga nema sem mæla loftmótstöðu en hún er ólík eftir því hvaða hitastig er í loftinu.

„Þetta er aðferð sem ekki hefur verið notuð áður. Það eina sem kúlurnar gera er að taka upp GPS-gögn um þá krafta sem virka á þær í heiðhvolfinu og miðhvolfinu,“ sagði Darri.

Meðfylgjandi myndskeið sýnir eldflaugaskotið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert