Löng málsmeðferð í raun vanræksla

Sýrlenskt flóttafólk við landamærastöðina Cilvegozu.
Sýrlenskt flóttafólk við landamærastöðina Cilvegozu. AFP

Hin langa málsmeðferð sem margir hælisleitendur sæta hér á landi jaðrar við að teljast ómannúðleg. Þetta sagði Guðbrandur Árni Ísberg sálfræðingur á ráðstefnu sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík í dag, um flóttamenn sem fórnarlömb pyndinga og ómannúðlegrar meðferðar.

Guðbrandur Árni hefur unnið mikið við meðferð flóttafólks og hælisleitenda, bæði á Íslandi og í Danmörku. Ekki hefur verið rannsakað hve hátt hlutfall flóttafólks á Íslandi hefur sætt pyntingum, en erlendar rannsóknir benda til að það séu um 35% flóttamanna en allt að 50% frá sumum löndum, eins og t.d. Kosovo eftir stríðið þar.

Tveir af hverjum þremur þeirra þróa með sér áfallastreituröskun, samkvæmt því sem fram kom í erindi Guðbrands.

Berjast, flýja eða stirðna

Guðbrandur sagði að vel sé hægt að hjálpa því fólki sem lifir af pyntingar en til þess þurfi mjög sérhæfð úrræði. Til þess að skilja af hverju tilteknum meðferðarúrræðum sé beitt þurfi að skilja hvernig heilinn virkar í hættuaðstæðum.

Guðbrandur sagði fyrstu viðbrögð spendýra við hættuaðstæðum að leita eftir óöryggi. Þetta kallaði hann umhyggjukerfið, sem megi m.a. sjá í verki hjá nýfæddum börnum sem bregðist við með gráti þar til þau finna fyrir öryggi og umhyggju.

Ef öryggið er hvergi að fá er næsta eðlisávísun annað hvort að berjast, ef aðstæður bjóða upp á það, eða leggja á flótta annars. Þegar fólk er fast í hættuaðstæðum og getur hvorki barist á móti né flúið grípur heilinn til þriðja viðbragðsins, sem er stirðnun.

Guðbrandur benti á að þetta sé m.a. þekkt hjá þolendum kynferðisofbeldis og það sama gerist líka hjá þeim sem sæti pyntingum. Þegar aðstæður eru fólki svo ofviða að það telur sig ófært um að bregðast við þá hreinlega stirðnar það.

Pyntingar gleymast aldrei

Guðbrandur sagði að við þessar aðstæður bregðist heilinn við með framleiðslu á náttúrulegu morfíni til að deyfa sársaukann. Hjá fólki sem sæti pyntingum nemi morfínframleiðslan allt að 9 mg.

Um leið og sársaukinn deyfist hafi þetta einnig þau áhrif að minningin dofnar og verður gloppótt. Þetta skýrir hvers vegna svo margir sem sætt hafa pyntingum eiga erfitt með að gefa af því heildstæða frásögn, því heilinn reyni að gleyma sársaukanum.

Áfallastreituröskunin felur m.a. í sér endurupplifanir á þessum minningarglefsum sem erfitt er að ráða við. Fólk endurupplifir áfallið oft af svo miklum krafti að því finnst eins og það sé að gerast hér og nú og líkaminn bregst jafnvel við með öfgafullum hætti eins og uppköstum eða yfirliði. „Pyntingar gleymast aldrei,“ sagði Guðbrandur, „hins vegar er hægt að breyta því hversu mikil tilfinningaleg og líkamleg viðbrögð verða við þessum minningum.“

Hælisleitendum ekki sýnd nægjanleg umhyggja

Áfallastreituröskun eftir pyntingar getur verið langvarandi og haft víðtæk áhrif, m.a. á fjölskyldulíf fólks að sögn Guðbrands. Þannig sýna rannsóknir að hjá flóttafólki sem sætt hefur pyntingum eru hjónaskilnaðir tíðari, meira um ósætti innan fjölskyldunnar og börn þeirra sýna meiri merki um vanlíðan en börn flóttafólks sem ekki hefur sætt pyntingum.

Þess vegna er nauðsynlegt að flóttafólki sé hjálpað að vinna úr áfallinu. Hann segir hælisleitendum ekki sýnd nægjanleg umhyggja í kerfinu. „Við þekkjum það mjög vel sem vinnum með flóttafólki að fyrst þegar þau koma til nýs lands þá róast þau, fyllast krafti og von. Svo líða mánuðirnir,“ sagði Guðbrandur.

Á Íslandi getur málsmeðferðin tekið meira en ár. Guðbrandur segir að á þessum tíma missi margir vonina og öryggistilfinninguna sem það upplifði fyrst við komuna til landsins. Í reynd sé því ofbeldi sem flóttafólk upplifir viðhaldið með því að draga mál þeirra á langinn með þessum hætti.

„Langur málsmeðferðartími kallar fram sársauka hjá flóttamönnum. Hér er því eiginlega um vanrækslu að ræða sem er mjög illa til þess fallin að vinna úr sálrænum afleiðingum pyntinga,“ sagði Guðbrandur.

Bann við ómannúðlegri meðferð alls staðar brotið

Í 3. grein mannréttindasáttmála Evrópu er lagt algjört bann við pyntingum sem og ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð á fólki. Pyntingar eru þó ekki skilgreindar nánar í sáttmálanum og öll Evrópuríki brjóta þetta bann að einhverju leyti, að sögn Péturs Haukssonar geðlæknis sem einnig flutti erindi á ráðstefnunni í dag.

Pétur sat lengi í Evrópunefnd um varnir gegn pyntingum (CPT), sem 47 ríki eiga aðild að.  Starf nefndarinnar felst m.a. í því að sendinefndir heimsækja aðildarríkin og kanna aðstæður fólks sem svipt hefur verið frelsi sínu með einum eða öðrum hætti, þ.á.m. flóttamanna. Markmið sendinefndanna er að fyrirbyggja að þar sé pyntingum eða ómannúðlegri meðferð beitt.

Í flestum löndum Evrópu búa flóttamenn við verstar aðstæður allra þeirra sem sviptir hafa verið frelsinu, að sögn Péturs. Hann sagði raunar flóttafólk og geðsjúka á réttargeðdeildum eiga „harða samkeppni“ um versta aðbúnaðinn.

Pétur nefndi Grikkland sem dæmi, en það er fyrsta viðkomuland flestra flóttamanna á Schengen svæðinu og ráða yfirvöld þar illa við ástandið. Pétur sagði þróunina í Grikklandi undanfarin ár á þann veg að flóttafólki sé haldið í rammgerðum fangelsum þar sem stórir hópar eru hýstir saman í n.k. skemmum. Þar sé nánast regla frekar en undantekning að dýnur séu of fáar og margir tugir manna séu um eitt klósett.

Ríki bregðast misvel við tilmælum

Mjög misjafnt er hvernig aðildarríkin bregðast við tilmælum CPT að sögn Péturs. Rússland hafi t.d. ekki verið samvinnuþýtt og hafi aðeins birt eina skýrslu nefndarinnar opinberlega.

Árangur hefur þó náðst með starfi nefndarinnar, t.d. á Tyrklandi, sem Pétur sagði dæmi um land þar sem pyntingar í miðaldastíl hafi ekki þótt fréttnæmar fyrir áratug síðan en þyki í dag mjög alvarlegar.

Þá má sjá ákveðið ljós í myrkrinu í viðbrögðum almennings í þeim löndum þar sem straumur flóttafólks er mikill. Til Spánar koma til dæmis reglulega flóttamenn á ofhlöðnum bátum og sagði Pétur að þegar spyrjist út að skip sé undan ströndinni verði oft kapphlaup milli almennra borgara og hersins um hver nái fyrst til flóttafólksins. Almennir borgarar flykkist á móti fólkinu til að hlúa að því með teppum og mat og þessar móttökur hafi mikið að segja fyrir andlega líðan flóttafólksins.

Af ráðstefnu um hælisleitendur í dag
Af ráðstefnu um hælisleitendur í dag mbl.is
Þrítugur Afgani í varðhaldi.
Þrítugur Afgani í varðhaldi. AFP
Íranskir hælisleitendur um borð í ofhlöðnum bát við Indónesíu.
Íranskir hælisleitendur um borð í ofhlöðnum bát við Indónesíu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert