Tók 10 ára stúlku með valdi

Maðurinn er grunaður um að brjóta gegn 11 ára stúlku.
Maðurinn er grunaður um að brjóta gegn 11 ára stúlku. mbl.is

Karl á fertugsaldri var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í gæsluvarðhald til 29. maí að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en það var gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Maðurinn var handtekinn í gær, en hann er talinn hafa brotið kynferðislega gegn stúlku á ellefta ári.

Tók hana með valdi og setti í aftursæti bifreiðar

Lögreglu barst tilkynning um málið skömmu fyrir kl. 17 í gær þegar foreldrar stúlkunnar höfðu samband, en stúlkan var þá nýkomin til síns heima í vesturbæ Reykjavíkur. Málsatvik voru þau að stúlkan var á heimleið úr skóla á þriðja tímanum eftir hádegi þegar ókunnugur maður tók hana með valdi og setti í aftursæti bifreiðar sem hann var á.

Ekið var með stúlkuna á afvikinn stað í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, en þar er maðurinn talinn hafa brotið gegn stúlkunni. Að því loknu ók maðurinn með stúlkuna aftur í vesturbæ Reykjavíkur og hleypti henni þar út, en þó fjarri heimili hennar. Þaðan gekk hún til síns heima. Á meðan frelsissviptingin stóð yfir hafði maðurinn í frammi grófar hótanir við stúlkuna.

Handtekinn í austurborginni

Lögreglan hélt á heimili stúlkunnar um leið og tilkynningin barst, en í framhaldinu var hún flutt til skoðunar á sjúkrahús. Fulltrúi barnaverndaryfirvalda var kallaður til, en þá þegar var hafin umfangsmikil leit að brotamanninum og ökutæki hans. Bíllinn fannst nokkru síðar við heimili mannsins í austurborginni, en maðurinn var innandyra í húsinu. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð.

Handtöku mannsins má að sögn lögreglu þakka stúlkunni sjálfri, en þrátt fyrir hræðilega lífsreynslu, gat hún gefið greinargóða lýsingu á manninum, bílnum sem hann var á og leiðinni sem hann ók. Maðurinn hefur áður komið við sögu hjá lögreglu, en þó ekki vegna mála af þessum toga.

Í ljósi alvarleika málsins vill lögreglan undirstrika að slík mál eru afar fátíð. „Mikilvægt er að foreldrar ræði yfirvegað við börn sín um þessi mál og kenni þeim hvernig bregðast á við ef þau lenda í slíkum aðstæðum.“

Ekki er ljóst hvort maðurinn uni úrskurði héraðsdóms, en hann tók sér frest til að íhuga þá ákvörðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert