Stefnt í kjölfar ritdeilna

Myndlistamennirnir Kristinn E. Hrafnsson og Ásmundur Ásmundsson hafa staðið í …
Myndlistamennirnir Kristinn E. Hrafnsson og Ásmundur Ásmundsson hafa staðið í ritdeilum á síðum Morgunblaðsins og nú hefur Ásmundur stefnt Kristni fyrir meiðyrði.

Ásmundur Ásmundsson, myndlistarmaður, hefur stefnt Kristni E. Hrafnssyni, myndlistarmanni, fyrir meiðyrði. Stefnan kemur í kjölfar ritdeilna Kristins og Ásmundar, sem spratt af ráðningu nýs rektors Listaháskóla Íslands. 

„Ég hef bara ekki haft tækifæri til að kynna mér þessa stefnu eða fá lögfræðing í málið. Það eru allir í fríi yfir þessa helgi og ég er alveg ókunnugur svona málum,“ segir Kristinn. „Næstu skref hjá mér verða að finna mér lögfræðing svo ég geti áttað mig á hver farvegur svona mála er.“

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 8. maí síðastliðinn hafði Kristinn eftirfarandi orð um Ásmund: „Ofan á þetta er hann kunnastur fyrir að eyðileggja listaverk annarra listamanna [...].“

Í stefnu krefst Ásmundur þess að ummælin verði dæmd dauð og ómerk. Ásmundur krefst einnig að Kristni verði gerð refsing fyrir brot á 235. grein almennra hegningarlaga, en til vara fyrir brot gegn 234. grein sömu laga.

Þá krefst Ásmundur einnar milljónar króna í miskabætur og 150.000 króna í kostnað til birtingar dómsniðurstöðunnar í dagblaði, auk málskostnaðar.

Væntanlega er Kristinn þar að vísa til verksins Fallegasta bók í heimi, höfundarverki Ásmundar Ásmundssonar, Hannesar Lárussonar og Tinnu Grétarsdóttur, sem var sýnt á sýningunni Koddu í Nýlistarsafninu vorið 2011. Í því verki hafði einu eintaki bókarinnar Flora Islandica eftir Eggert Pétursson verið umbreytt á mjög afgerandi hátt með því að maka blaðsíðurnar matvælum.

Listamaðurinn Eggert Pétursson sagði í fréttum Útvarpsins á þeim tíma að níðingsverk hafi verið unnið á bókinni á Koddu.

Hart var deilt um sýninguna og einnig um höfundarrétt og sæmdarrétt listamanna, samkvæmt frétt mbl.is í apríl 2011.

Verkið Fallegasta bók í heimi var einkum gagnrýnt og ákvað stjórn safnsins að taka verkið niður eftir að farið var fram á lögbann vegna þess. 

Eggert Pétursson með eintak bókarinnar Flora Islandica
Eggert Pétursson með eintak bókarinnar Flora Islandica mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert