Enginn áður gegnt ráðherraembætti

„Við erum öll að koma inn í ráðuneyti í fyrsta skipti og þannig að byrja á ákveðnum núllpunkti hvað varðar aðgang að upplýsingum og starfsmönnum ráðuneytanna, en auðvitað felum við þessu fólki sem í ráðuneytunum starfar að innleiða þá stefnu sem við höfum talað fyrir,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, en hann sagði aðspurður að það væri ekki að yfirlögðu ráði að enginn ráðherra ríkisstjórnar hans hefði gegnt ráðherraembætti áður.

„Enginn í þingflokki Framsóknarflokksins hefur verið í stjórnarmeirihluta. Ég get ekki svarað fyrir hvort það sé meðvitað hjá Sjálfstæðisflokknum að velja bara fólk í ráðherraembætti sem hefur aldrei gegnt slíku embætti áður. Þetta er vissulega óvenjulegt og hefur aldrei gerst í sögu lýðveldisins, og mögulega í sögu Norðurlanda þar sem allir ráðherrar eru nýir í starfi,“ sagði hann ennfremur.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verður forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar, Sigurður Ingi Jóhannsson verður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra.

Bjarni Benediktsson verður fjármála- og efnahagsráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríksiráðherra, Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.

Fráfarandi ríkisstjórn mun funda með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, á Bessastöðum á morgun klukkan 11:00. Í kjölfar hans mun forsetinn bjóða ráðherrum fráfarandi stjórnar til hádegisverðar. Forsetinn fundar síðan aftur klukkan 15:00 með nýrri ríkisstjórn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert