Ríkisstjórnin smiti jákvæðni og bjartsýni

Samkvæmt nýjum stjórnarsáttmála sem formenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks undirrituðu í dag verður hlé gert á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og þeim ekki fram haldið fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Að sögn Bjarna Benediktssonar, verðandi fjármálaráðherra, verður það væntanlega meðal fyrstu verka nýrrar ríkisstjórnar að tilkynna framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um þessa stefnubreytingu á Íslandi.

Finna fyrir miklum væntingum

„Ég sé þetta þannig fyrir mér að því verði komið til skila til Evrópusambandsins að ríkisstjórnin hafi ekki áhuga á að halda aðildarviðræðunum áfram. Það er síðan hugmundin að staða viðræðnanna, þróunin innan Evrópusambandsins og málið í heild sinni verði tekið saman í sérstaka skýrslu sem flutt verður þinginu.Þannig að umræða fari fram um árangurinn af viðræðunum fram til þessa, hvar ferlið er statt og hvernig Evrópusambandið hefur verið að þróast og breytast á undanförnum árum og sú umræða fari fram á næsta þingi sé ég fyrir mér, næsta vetur,“ segir Bjarni.

Ríkisstjórnin setur sér enga tímasetningu um hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræðurnar fari fram. Geta kjósendur treyst því að málinu verði ekki drepið á dreif?

„Ég tel mikilvægt að hafa það í huga í þessu sambandi að við ráðum okkur ekki alfarið sjálf í þessu, hlutirnir verða að gerast í réttri röð. Það er til dæmis mikilvægt að fá viðbrögð frá Evrópusambandinu við þessari niðurstöðu ríkisstjórnarinnar sem hér er í burðarliðnum.

Jafnframt finnst mér rétt að taka ekki fram fyrir hendurnar á þinginu um það hvenær slík þjóðaratkvæðagreiðsla kæmi til greina. En þetta er að mínu mati dæmigert mál um það þar sem þjóðaratkvæðagreiðsla er heppileg aðferð til þess að leiða þann ágreining sem hefur verið um málið í jörð.“

Hvernig ráðherra ætlar þú þér að verða?

„Ég vona að ríkisstjórnin í heild sinni smiti jákvæðni og bjartsýni út í samfélagið. Ég vona líka að mér auðnist í mínum störfum að hlusta eftir því sem verið er að kalla eftir úti í samfélaginu,“ segir Bjarni og bætir því við að hann ætli að leggja hart að sér í þessu starfi.

„Ég vonast líka til þess að við getum risið undir þeim miklu væntingum sem við finnum að eru gerðar til okkar. Við boðuðum fyrir þessar kosningar breytingar, og þær breytingar eiga að vera til góðs.“

mbl.is