Nýr stjórnarsáttmáli undirritaður

Formenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks undirrita stjórnarsáttmálann á Laugarvatni.
Formenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks undirrita stjórnarsáttmálann á Laugarvatni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafa undirritað stjórnarsáttmála flokkanna í húsnæði gamla Héraðsskólans á Laugarvatni.

Ný ríkisstjórn þessara flokka, undir forsæti Framsóknarflokksins, mun taka við á morgun 23. maí á ríkisráðsfundi á Bessastöðum.

Starfar í anda ungmennahreyfingarinnar

Í máli Sigmundar Davíðs kom fram að ríkisstjórnin muni starfa í anda ungmennahreyfingarinnar með ræktun lýðs og lands að leiðarljósi. Hann sagðist ákaflega sáttur við samkomulag stjórnarflokkanna í málefnum heimilanna. Eins varðandi ákvæði um efnahags- og skattamál þar sem skattkerfið verði hvetjandi fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu.

Ný ríkisstjórn leggur höfuðáherslu á nýsköpun og landbúnað. Sigmundur Davíð sagði gríðarleg tækifæri á Norðurslóðum sem ríkisstjórnin leggi áherslu á og nefndi olíu- og gasvinnslu í því samhengi.

Þá sagði hann umhverfismál fá sérstaka athygli í stjórnarsáttmálanum og áhersla sé lögð á að Ísland eigi að vera í fararbroddi í umhverfismálum á heimsvísu.

Áhersla verður lögð á að halda öllu landinu í byggð og nýta kosti þess alls.

Rétt forgangsröðun og sátt um lausn mikilvægra mála

Bjarni Benediktsson sagðist afar ánægður með að flokkarnir tveir hefðu náð saman og það hefði verið eðlilegt framhald eftir niðurstöður þingkosninganna.

Hann sagði flokkana hafa lagt upp með það fyrir kosningar að gera þyrfti breytingar og að með samstarfinu nú væru menn komnir á rétta braut hvað þetta varðar. Mikilvægt væri að forgangsraða rétt og ná sátt og samstöðu um lausn á mikilvægustu samfélagsverkefnunum.

Hann sagði Ísland fullt af tækifærum en að ef ekki væri rétta andrúmsloftið í stjórn landsins til að nýta þessi tækifæri myndi Ísland tapa samkeppnisstöðu við aðrar þjóðir.

Hann sagðist vona að með þessari ríkisstjórn myndi andrúmsloft í samfélaginu breytast til batnaðar og pólitískri óvissu yrði eytt. Að fólk sannfærðist um það að ríkisstjórnin væri að vinna með fólkinu í landinu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og verðandi forsætisráðherra við Héraðsskólann …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og verðandi forsætisráðherra við Héraðsskólann á Laugarvatni í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert