Sigurður G. sætir áminningu

Sigurður G. Guðjónsson
Sigurður G. Guðjónsson Friðrik Tryggvason

Úrskurðarnefnd Lögmannafélags Íslands hefur áminnt hæstaréttarlögmanninn Sigurð G. Guðjónsson vegna skrifa sinna til Lex lögmannsstofu. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að með skrifunum og framkomu sinni í garð Lex hafi Sigurður brotið gróflega gegn siðareglum lögmanna. Hann sæti því áminningu.

Sigurður greinir sjálfur frá þessu á samskiptavefnum Facebook. Hann fjallaði ítarlega um málið á vefsvæði sínu 16. mars síðastliðinn, degi eftir að honum barst kæra lögmannstofunnar Lex á hendur sér.

„Lex lögmenn, sem vandir eru að virðingu sinni í hvívetna, telja mig hafa farið yfir hina fínu línu siðgæðis í samskiptum við þá vegna eins skjólstæðings míns,“ sagði Sigurður í mars en Lex stefndi skjólstæðingi Sigurðar og krafðist 300 milljóna króna í skaðabætur vegna tjóns sem Glitnir hf. á að hafa orðið fyrir vegna lánveitinga til félagsins Stíms ehf. í byrjun árs 2008.

Sigurður setti sig í samband við lögmann á Lex og óskaði eftir því að málssókn á hendur umbjóðanda hans yrði hætt. Hann ítrekaði ósk sína í tölvubréfi eftir að hann fékk neitun.

„Í þeim tölvupósti benti ég m.a. á mögulega ábyrgð lögmanna Lex vegna stjórnarsetu þeirra í fimm félögum sem tengdust Glitni banka hf. og Stími ehf. Lex lögmenn tóku þessu og öðru sem í tölvupóstinum kom fram sem hótun um atlögu að orðspori þeirra og hafa nú kært mig til siðanefndar Lögmannafélags Íslands,“ sagði Sigurður.

Pistli sínum í mars lauk Sigurður á þennan veg: „Ég hlakka til að fá niðurstöðu siðanefndar Lögmannsfélags Íslands. Reikna ekki með öðru en að verða ávíttur, kannski sektaður og látinn bera kostnað Lex, enda grafalvarlegt mál að gera þá kröfu, að um lögmenn gildi sömu reglur um ábyrgð á rekstri hlutafélaga og aðra menn.“

Eftir því sem Sigurður segir á Facebook gekk það eftir sem hann hélt. Hann segir að úrskurðarnefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að með skrifum sínum til Lex hafi hann brotið gróflega gegn 30. grein siðareglna og með framkomu sinni í garð Lex hafi hann einnig brotið gegn 2. gr. 

mbl.is