Útblástur barst inn í hjólhýsið

Þjórsárdalur.
Þjórsárdalur.

Bráðabirgðaniðurstöður rannsóknar vegna andláts hjóna í hjólhýsi þeirra í Þjórsárdal eru þær að samsetning á reykröri við gasofn var í sundur sem leiddi til þess að að útblástursloft barst inn í hjólhýsið frá útblæstri kyndingarinnar í stað þess að fara út um reykháf.

Þrýstijafnarar og annar búnaður fyrir gaslagnir er enn til rannsóknar hjá tæknideild lögreglu höfuðborgarsvæðisins og Vinnueftirlitinu. Fyrsta skoðun bendir þó til þess að allur búnaður hafi verið í lagi.

Beðið er endanlegrar niðurstöðu krufningar en bráðabirgðaniðurstöður styðja það sem fram er komið við rannsókn á búnaði hjólhýsisins.

Hjólhýsið sem um ræðir hafði verið fastsett á staðnum og var notað sem sumarbústaður þar.

Úrskurðuð látin á vettvangi

Lögreglunni á Selfossi barst tilkynning kl. 20.53 á sunnudagskvöld um að hjón um sjötugt væru meðvitundarlaus í hjólhýsi sínu á tjaldsvæði við Skriðufell í Þjórsárdal. Lögregla og sjúkraflutningamenn fóru þá þegar á vettvang en nærstaddir brutust inn í húsið og komu hjónunum út undir bert loft og hófu tilraunir til endurlífgunar. Þær báru ekki árangur og hjónin voru úrskurðuð látin á vettvangi.

Hjónin hétu Edda Sigurjónsdóttir og Alexander G. Þórsson til heimilis í Lækjarsmára 2 í Kópavogi. Þau voru 67 ára og 72 ára.

Hjólhýsi
Hjólhýsi mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert