„Vildi vita meira um rætur mínar“

Ösp Ásgeirsdóttir, Sigríður Haraldsdóttir, Sebastian Johansson, Lisa Kanebäck og Kristinn …
Ösp Ásgeirsdóttir, Sigríður Haraldsdóttir, Sebastian Johansson, Lisa Kanebäck og Kristinn Ingvarsson. Mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Á meðan ferðinni stóð, áttaði ég mig meira og meira á því hversu sænsk ég var í raun og veru,“ segir Lisa Kanebäck. Hún var stödd hér á landi ásamt vini sínum Sebastian Johansson, en þau voru sem börn ættleidd til Svíþjóðar frá Kolkata á Indlandi. Þau sneru bæði til baka á síðasta ári þar sem þau unnu meðal annars á barnaheimilinu þar sem Lisa dvaldi fyrstu mánuði ævi sinnar. Um helgina stóð Íslensk ættleiðing fyrir fræðslufundum um leit ættleiddra ungmenna að uppruna sínum. Á fundinum deildu Lisa og Sebastian reynslu sinni, upplifun, vonum og væntingum og vakti frásögn þeirra athygli fundargesta.

Mikilvægt að taka eitt skref í einu

„Hluti ferðarinnar snerist um að finna upprunann,“ segir Sebastian Johansson. Vinirnir vildu finna og heimsækja barnaheimilin þar sem þau dvöldu fyrstu mánuði ævi sinnar en þeim fannst einnig mikilvægt að kynnast fæðingarlandinu og menningunni. Að sögn Sebastians getur verið erfitt að hafa upp á líffræðilegum foreldrum ættleiddra barna á Indlandi og því hafi hann ekki haft miklar væntingar þegar hann lagði af stað. „Ég var svo heppinn að finna barnaheimilið þar sem ég dvaldi,“ segir hann.  „Þá fann ég að að ég vildi meira um rætur mínar.“

„Áður en ég fór af stað til Indlands hélt ég að mér myndi líða meira eins og heima vegna þess að allir litu út eins og ég,“ segir Lisa. „Ég áttaði mig þó á því að menningin og landið var ekki ég, aðeins útlitið var eins.“

Lisa og Sebastian hvetja ættleidd ungmenni til að heimsækja fæðingarlönd sín. „Ef þú ert forvitinn, þá finnst mér að þú ættir að fara,“ segir Lisa. Þau leggja þó áherslu á mikilvægi þess að vera ekki of vongóður um að finna líffræðilega foreldra sína. „Í fyrsta skipti sem þú heimsækir landið, vertu þá ánægður með að kynnast menningunni og landinu,“ segir hún. „Ef þú ert enn forvitinn eftir ferðina, þá ættir þú kannski að kanna hvort það sé möguleiki á meiru.“

„Þetta er svo viðkvæmt“

„Ég hef í mörg ár viljað þekkja minn uppruna,“ segir Sigríður Haraldsdóttir, en hún var ættleidd hingað til lands sem barn. Hún hefur alla tíð haft mikinn áhuga á fæðingarlandi sínu Sri Lanka og upplýsingum um ættingja sína. Móðir hennar reyndi meðal annars hafa upp á bróður hennar í gegnum Rauða Krossinn, þó án árangurs. „Í seinni tíð hef ég rætt við Íslenska ættleiðingu um uppruna minn,“ segir Sigríður. Enginn tengiliður er við landið í dag og hefur leitin því ekki skilað miklum árangri. „Þetta er svo viðkvæmt, þú getur ekki fengið hvern sem er til að leita uppruna þíns,“ segir hún.

Sigríður stefnir á að heimsækja landið síðar meir. Aðspurð segist hún ekki hafa hugsað mikið um hvað muni mæta henni þegar hún kemur út. „Maður má ekki gera sér of miklar væntingar,“ segir hún. „Mig langar þó mjög mikið að fá að hitta bróður minn eða mömmu mína.“

Maður veit ekki hvaða skuldbindingar maður hefur

„Mér fannst þetta ótrúlega áhugavert þar sem það hafði aldrei neinn komið til Íslands og haldið fyrirlestur með svona mikla reynslu,“ segir Ösp Ásgeirsdóttir, en hún var ættleidd hingað til lands frá Jakarta í Indónesíu.  „Fundurinn vakti eitthvað upp,“ segir hún. „Maður var forvitinn.“

„Ég hef ekki verið að skoða að fara til fæðingarlands míns í leit að einhvers konar uppruna," segir Ösp. „Mig langar frekar að kynnast menningu, landi og þjóð.“

Ívar Bergmann Egilsson var ættleiddur hingað til lands frá Indandi og heimsótti hann fæðingarlandið ásamt foreldrum sínum þegar hann var þrettán ára gamall. „Þau vildu að ég kynntist umhverfinu,“ segir Ívar.

Fjölskyldan stefndi að því að heimsækja þorpið þar sem Ívar fæddist, rétt fyrir utan Kalkutta á Indlandi og höfðu fengið mann til að grennslast nánar fyrir um uppruna Ívars. „Þegar við vorum að leggja af stað í þorpið sagði ég nei, “segir Ívar og bætir við að hann hafi ekki verið tilbúinn að stíga þetta stóra skref. „Maður veit ekki hvaða skuldbindingar maður hefði til fjölskyldunnar ef maður finndi hana.“

Þarf að huga að menningu og aðstæðum

Sigríður, Ösp og Ívar eru ánægð með fundinn og segja hann hafa gefið nýja sýn á þetta viðkvæma málefni. Að ýmsu þurfi að huga að þegar ættleiddir einstaklingar hyggjast leita uppruna síns. „Maður þarf að taka allt inn í dæmið,“ segir Ösp. „Það þarf að huga að menningu líffræðilegu fjölskyldunnar, högum þeirra og aðstæðum.“

Þau segjast öll hafa fengið góðan stuðning frá foreldrum sínum í gegnum tíðina. „Auðvitað væri það alltaf viðkvæmt ef ég vildi leita minna líffræðilegu foreldra,“ segir Ösp. „Þetta er þó eitthvað sem ég hef ekki haft áhuga á og þau hafa því ekki þurfti að glíma við það.“ Leit ættleiddra að líffræðilegum foreldrum geti þó verið afar viðkvæmt og tilfinningaríkt málefni og kom Sebastian meðal annars inn á þetta mál á fundinum.

Hann lýsti því að afi hans og amma hefðu dregið úr honum þegar hann vildi fara út til Indlands og leita uppruna síns. „Þau voru, eins og hann lýsti því, mjög ósanngjörn við hann og hann varð mjög sár,“ segir Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar. Þegar Sebastian kom heim upplifði hann þó meiri stuðning frá þeim.

„Hann áttaði sig á því að þau voru bara hrædd, hann var ennþá litli strákurinn þeirra,“ segir Kristinn. „Hann vildi fara til Indlands og þau voru bara hrædd um að hann kæmi ekki aftur," segir Kristinn.

Heimasíða Íslenskrar ættleiðingar

Sebastian Johansson og Lisa Kanebäck.
Sebastian Johansson og Lisa Kanebäck. Mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Ösp Ásgeirsdóttir, Ívar Bergmann Egilsson . Sigríður Haraldsdóttir,
Ösp Ásgeirsdóttir, Ívar Bergmann Egilsson . Sigríður Haraldsdóttir, Mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert