Man óljóst eftir árásinni

Maðurinn er grunaður um að hafa stungið fórnarlambið 3-4 sinnum.
Maðurinn er grunaður um að hafa stungið fórnarlambið 3-4 sinnum. mbl.is/Ásdís

Íslendingurinn, sem grunaður er um að hafa stungið mann til bana aðfaranótt sunnudagsins í Valle í Noregi, verður leiddur fyrir dómara síðar í dag þar sem krafist verður gæsluvarðhalds yfir honum. Að sögn norsku lögreglunnar man maðurinn gloppótt eftir nóttinni.

Um var að ræða 10-15 manna garðveislu en þegar árásin átti sér stað voru aðeins þrír gestir eftir. Lögreglan var kölluð til laust fyrir klukkan fjögur og handtók hún hinn grunaða, 38 ára Íslending sem hefur verið búsettur í Noregi í 13 ár. Fórnarlambið, fimmtugur karlmaður, var flutt á spítala í Osló þar sem hann lést af sárum sínum.

Að sögn lögreglunnar hefur verið rætt við vitni sem eiga erfitt með að muna nákvæmlega hvað gerðist um nóttina og hver aðdragandi árásarinnar var. Lögreglan hefur rætt við manninn en formleg yfirheyrsla mun fara fram síðar í vikunni, þegar skýrari mynd hefur fengist af atburðarás næturinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert