„Á gólfinu var allt í viðbjóði“

„Það mætir mér þessi ógeðslega lykt þegar ég opna,“ segir Halla Björg Albertsdóttir íbúi í Giljahverfi á Akureyri sem lenti í þeirri ömurlegu lífsreynslu að koma heim til sín í gærkvöldi og sjá að einhverjir voru búnir að leggja hana í rúst. Búið var að tæma ísskápinn og sulla mat út um allt.

„Þetta var remúlaði, kokteilsósa, steiktur laukur, tómatssósa, pylsur og lýsi - þú getur rétt ímyndað þér lyktina,“ segir Halla í samtali við mbl.is. Það eina sem var eftir í ísskápnum var kókflaska, einn eggjabakki og svo hóstasaft sem er geymt í efstu hillunni svo sonur hennar nái ekki í það.

Halla hafði samband við lögregluna sem er með málið til rannsóknar.

„Ég vil fá að komast að því hver þetta er,“ segir Halla, en grunur leikur á að þarna hafi börn verið á ferðinni. Hún segir að þetta sé annað atvik af svipuðum toga sem eigi sér stað í hverfinu.

Halla, sem er búsett í fjórbýli með sérinngangi, ræddi við nágranna sína í gærkvöldi sem urðu ekki varir við neitt óeðlilegt.

Hún lýsti atburðum ítarlega á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. Halla, sem er tveggja barna móðir, segir að þetta hafi verið mjög hræðileg lífsreynsla og óþægilegt að vita af ókunnugum einstaklingum inni á sínu heimili í heimildarleysi. Halla fór í ræktina kl. 18 í gærkvöldi og um kl. 20:30 var hún kominn aftur heim. Þegar hún gekk inn fann hún þessa hræðilegu lykt. Hún segist í fyrstu ekki hafa áttað sig á því væri eiginlega í gangi en svo blasti við henni ömurleg sjón.

Öllum mjög brugðið

Höllu var mjög brugðið og sömu sögu er að segja um sex ára gamlan son hennar sem varð mjög óttasleginn. Halla, sonur hennar og 19 mánaða gömul dóttir fóru beint inn í herbergi drengsins þar sem þau lokuðu að sér og hafði Halla samband við tengdaforeldra sína sem komu strax á vettvang.

Þá var Halla ekki búinn að skoða aðstæður almennilega í eldhúsinu sem var mjög illa leikið eftir innrásina. Sömu sögu var að segja um stofuna og baðherbergið, líkt og sjá má að meðfylgjandi ljósmyndum.

Á gólfinu var allt í viðbjóði, það var sem sagt búið að nánast tæma ískápinn minn og opna allt og brjóta,sulla, hella niður á alla innréttinguna, það hafði lekið ofaní skúffur mjólkin sem hellt var niður, greyjið sonur minn tjáði mér það að hann væri að fá hjartaáfall, elsku 6 ára sonur minn var skíthræddur og ég vissi enganvegin hvernig ég ætti að höndla þetta allt í einu,“ skrifaði Halla á Facebook-síðu sína í gærkvöldi þegar hún lýsti aðstæðum.

Fingravettlingar og lítið fótspor

Meðal þess sem fannst í íbúðinni voru svartir fingravettlingar á stúlku. Einnig fundust fótspor sem lögreglan séu af stærðinni 28-30. Halla segir að skóstærðin passi ekki við skónúmer sinna barna.

„Ég spái því að þetta sé leikskólastelpa með einhverjum eldri krökkum sem hafa komið inn,“ segir Halla.

Komu með mat með sér

Hún bætir því við að þetta sé annað atvikið af svipuðum toga sem eigi sér stað í hverfinu. „Maðurinn sem lenti í þessu hafði samband við mig. Hann segir að þar höfðu þau komið með mat með sér. Þar föndruðu þau úr matnum,“ segir Halla. Maðurinn hafi m.a. lent í því að majónesi hafi verið sprautað yfir sjónvarpið og var leikföngum hent ofan í salernið. Halla segist sem betur fer hafa sloppið við það.

„Ég var til tvö í nótt að þrífa,“ segir Halla. Enn er vond lykt í íbúðinni og segir hún að þrifunum sé hvergi nærri lokið.

Aðspurð segist Halla talið að það væri óhætt að hafa íbúðina ólæsta. „Maður er á litlu Akureyrinni og maður trúir ekki svona,“ segir hún að lokum. Hún kveðst hafa aðra skoðun eftir þessa vondu lífsreynslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina