Ákjósanlegt að auka áhrif Norðurlanda innan ESB

„Finnlandi þætti ákjósanlegt að Íslendingar ykju áhrif Norðurlandanna innan Evrópusambandsins,“ sagði Sauli Niinistö, forseti Finnlands á blaðamannafundi í dag í tilefni af opinberri heimsókn finnsku forsetahjónanna til Íslands. Hann sagðist þó skilja vel að Íslendingar þyrftu að hafa opna umræðu um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Hann sagðist binda miklar vonir við norrænt samstarf í framtíðinni og taldi ekkert standa því í vegi að Finnar tækju þátt í loftrýmisgæslu við Ísland á næstunni, sem hann sagði geta styrkt NORDEFCO, varnarsamstarf norrænu ríkjanna. Hann taldi slíkt samstarf ekki ógna ímynd Finnlands sem friðsæls og hlutlauss lands, en Finnland er ekki aðili að NATO.

Menntun leiðin út úr kreppunni

Aðspurður hvaða lykilatriði hefðu hjálpað Finnum við að takast á við kreppuna sem skall þar á á 10. áratugnum svaraði Niinistö því til að virðing fyrir menntun og þekkingu, samhliða endurskoðun á lífsgildum þjóðarinnar, hefðu spilað þar lykilhlutverk eftir tímabil mikils flæðis erlends fjármagns inn í landið og aukningar á gjaldeyrislántöku.

Sameiginlegir hagsmunir á norðurslóðum

Þá ræddi Niinistö um Norðurskautsráðið og samstarf í málefnum norðurslóða, en eftir að Kína, Japan, Suður-Kóreu, Indlandi, Singapúr og Ítalíu var veitt áheyrnaraðild að ráðinu á dögunum á yfir helmingur mannkyns aðild að því, hvort sem miðað er við fólksfjölda eða stærð hagkerfanna. Taldi hann hagsmuni Norðurlandanna skarast í málefnum norðurslóða, og sé því fullt tilefni til samstarfs og samstöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina