Veldur álitshnekki og fjártjóni

Fornleifauppgröftur á Hólum í Hjaltadal.
Fornleifauppgröftur á Hólum í Hjaltadal. Ómar Óskarsson

Skýrsla um stjórnsýslu fornleifarannsókna og fornleifavernd hefur að geyma rangfærslur um störf Ragnheiðar Traustadóttur, stjórnanda Hólarannsóknarinnar, sem eru til þess fallnar að valda henni álitshnekki og fjártjóni.

Þetta kemur m.a. fram í bréfi sem Jónas Fr. Jónsson lögfræðingur hefur sent mennta- og menningarmálaráðuneyti, fyrir hönd Ragnheiðar Traustadóttur, vegna skýrslu um stjórnsýslu fornleifarannsókna og fornleifavernd á Íslandi 1990-2010. Í skýrslunni er m.a. Hólarannsóknin gagnrýnd og nefnd sem dæmi um fornleifaverkefni þar sem framvinduskýrslum sé ábótavant og ónákvæmar fjárhagsáætlanir. Hólarannsóknin er fjármögnuð með opinberu fé og hefur staðið yfir frá árinu 2002.  

Í bréfi Jónasar er óskað eftir upplýsingum um fyrirætlanir ráðuneytisins varðandi skýrsluna, jafnframt er spurt á hvaða lagagrunni skýrslan sé unnin og birt. Þá er óskað eftir afstöðu ráðuneytisins til þess, að hvorki hafi verið leitað eftir upplýsingnum frá Ragnheiði né óskað eftir sjónamiðum hennar við vinnslu skýrslunnar. Ennfremur er óskað eftir afriti af öllum gögnum í vörslu ráðuneytisins um ritun, vinnslu, birtingu og dreifingu skýrslunnar. Ennfremur er óskað eftir upplýsingum um hvers vegna skýrslan hafi verið fjarlægð af vef ráðuneytisins.   

Svara við spurningunum, sem eru átta talsins, er óskað frá ráðuneytinu ekki síðar en 4. júní næstkomandi.  

„Það var aldrei neitt borið undir mig við gerð skýrslunnar,“ segir Ragnheiður Traustadóttir, stjórnandi Hólarannsóknarinnar, í samtali við mbl.is en vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Hún hefur leitað til lögmanns sem mun gæta hagsmuna hennar vegna vinnslu, birtingar og umfjöllunar um skýrsluna. 

Frétt mbl.is: Gat ekki tekið við gripunum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert