Löng saga undirokunar og ofbeldis

Rannsókn á ofbeldi gegn fötluðum konum leiddi í ljós að flestar þeirra áttu langa sögu af undirokun og ofbeldi. Ofbeldið var margháttað, allt frá einelti í æsku til kynferðislegs ofbeldis af hendi maka eða starfsfólks á heimilum fatlaðs fólks. Skýrsluhöfundar segja ljóst að rannsaka þurfi ofbeldi gegn fötluðum konum enn frekar.

Rannsóknin, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Rannsóknasetur í fötlunarfræðum vann fyrir velferðarráðuneytið, náði til 13 fatlaðra kvenna sem höfðu reynslu af ofbeldi.

Markmiðið var að gera grein fyrir eðli ofbeldis gegn fötluðum konum, að kanna við hvers konar aðstæður ofbeldið átti sér stað og hvaða afleiðingar það hafði fyrir fatlaðar konur að hafa verið beittar ofbeldi. Skýrsluhöfundar taka fram að sögur kvennanna eru ekki endilega dæmigerðar fyrir líf fatlaðra kvenna almennt

Í niðurstöðukafla skýrslunnar, sem er mjög yfirgripsmikil, kemur fram, að allar konurnar höfðu upplifað ofbeldi í barnæsku af einhverjum toga. Auk þeirra kvenna sem höfðu orðið fyrir einelti höfðu fjórar konur orðið fyrir miklu andlegu- líkamlegu- og kynferðislegu ofbeldi á æskuheimilinu og fimm fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi einhvers sem stóð utan við fjölskylduna.

Einelti í skóla og lítill stuðningur frá nærumhverfinu

Flestir viðmælendur urðu fyrir einelti í barnaskóla. Þeim fannst aðilar innan skólans hafa sýnt litla viðleitni til að styðja þær og voru á þeirri skoðun að skólakerfið hafi brugðist sér. Eineltið hafði neikvæð áhrif á heilsu þeirra og líðan í barnæsku auk þess sem það hafði mótandi áhrif á þær á fullorðinsárum.

Konurnar, sem höfðu verið beittar ofbeldi á æskuheimilinu, fengu lítinn stuðning frá nærumhverfinu við að reyna að brjótast út úr þeim aðstæðum sem þær voru í. Það virðist hafa ríkt ákveðið andvaraleysi eða þegjandi samkomulag í umhverfinu um að skipta sér ekki af málum sem áttu sér stað innan veggja heimilanna.

Nokkrar kvennanna höfðu verið sendar í fóstur sem börn. Þær lýstu erfiðleikum í samskiptum við fósturforeldrana sem bendir til þess að því hafi fylgt álag að mynda tilfinningaleg tengsl við nýja foreldra.

Makar notfærðu sér að vera í ráðandi stöðu

Fimm konur deildu reynslu sinni af því að verða fyrir ofbeldi af hendi eiginmanns eða kærasta. Fram komu lýsingar á andlegu, fjárhagslegu, kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi. Ofbeldið einkenndist af valdaójafnvægi milli kvennanna og maka þeirra, sem notfærðu sér það að vera í ráðandi stöðu í sambandinu. Lýsingar kvennanna benda til þess að viðbrögð nærumhverfisins hafi verið af skornum skammti og að þær hafi ekki fengið nægan stuðning til að brjótast út úr ofbeldissamböndunum.

Í viðtölunum kom fram að skortur væri á fræðslu til kvenna með þroskahömlun um hvað einkennir heilbrigt kynlíf og gott parasamband. Fáar höfðu fengið kynfræðslu og kallað var eftir fræðslu sem væri sérsniðin að þörfum þessa hóps.

Þrýst á að fara í ófrjósemisaðgerð og fóstureyðingu

Konurnar lýstu því hvernig afskiptasemi fjölskyldu kom í veg fyrir að þær réðu eigin lífi. Því var lýst hvernig þær urðu fyrir þrýstingi frá fjölskyldumeðlimum um að fara í ófrjósemisaðgerð og fóstureyðingu og hvernig fjölskyldan réði því hvernig búsetumálum þeirra væri háttað.

Nokkrar þeirra kvenna sem höfðu búið á sambýlum og í sjálfstæðri búsetu með stuðningi lýstu því að hafa orðið fyrir ofbeldi af hendi sambýlisfólks eða starfsfólks stofnananna. Oftast var um líkamlegt ofbeldi að ræða en einnig komu fram lýsingar á andlegu og kynferðislegu ofbeldi.

Mörgum kvennanna fannst vinnureglur á sambýlum og öðrum stofnunum vega að sjálfstæði og sjálfræði sínu.

Þöggun viðhaldið af kerfislægum þáttum

Skýrsluhöfundarnir segja, varðandi tillögur að úrbótum, að þöggunin sem ríkti um það ofbeldi sem konurnar urðu fyrir hafi á vissan hátt verið viðhaldið af kerfislægum þáttum svo sem skertu aðgengi kvennanna að félagslegri og réttarfarslegri aðstoð. Því sé mikilvægt að rannsaka nánar hvernig kerfislægir þættir geti hindrað fatlaðar konur í að sækja stuðning og tilkynna um ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. Tryggja þurfi aðgengi fatlaðra kvenna að félagslegri og sálfræðilegri ráðgjöf og stuðla að aukinni sérhæfingu innan félagskerfisins til að mæta þörfum þeirra.

Þá benda niðurstöðurnar til þess að þörf sé á almennri vitundarvakningu um ofbeldi gegn fötluðum börnum. Það verði meðal annars gert með öflugu framboði á fræðslu til starfsfólks í skólum, félagsmiðstöðvum og til annarra aðila sem koma að þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra.

Séu vakandi fyrir einelti gegn fötluðum börnum

Þá segir, að niðurstöður varpi ljósi á einelti gegn fötluðum börnum og kalli á áframhaldandi rannsóknir á tengslum eineltis og fötlunar. Þá sé mikilvægt að skoða hvaða árangur hafi náðst með eineltisáætlunum sem flestir skólar starfi nú eftir. Mikilvægt sé að kennarar og skólayfirvöld séu vakandi fyrir einelti gegn fötluðum börnum og þekki hvernig eigi að bregðast við. Niðurstöður undirstriki einnig mikilvægi þess að komið sé til móts við ólíkar námsþarfir barna í skólastarfi.

Bent er á, að þátttakendur í rannsókninni hafi verið fáir og því sé ljóst að rannsaka þurfi ofbeldi gegn fötluðum konum enn frekar. Jafnframt sé vert að skoða nánar tengsl fötlunar og ofbeldis. Niðurstöður sýni að fötlun geti verið í senn orsakavaldur og afleiðing ofbeldis. Rannsaka þurfi á hvaða hátt félagslegar aðstæður fatlaðra kvenna og hindranir þeim tengdar geri þær að viðkvæmum hópi fyrir ofbeldi. Með því móti sé jafnframt hægt að bera kennsl á frekari þætti sem þarfnast úrbóta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert