Ólíkar sögur af aðdraganda morðsins

mbl.is/Ásdís

Lögreglan í Noregi vill ekkert gefa upp um aðdraganda morðsins í Valle, en 38 ára Íslendingur er grunaður um að hafa veitt útvarpsmanninum Helge Dahle banvæn stungusár í samkvæmi aðfaranótt sunnudagsins. Að sögn norska blaðsins VG fer lýsingum hins grunaða og vitnis í veislunni á aðdraganda árásarinnar ekki saman, en talsverðs magns áfengis hafði verið neytt og hefur hinn grunaði sagt minni sitt afar gloppótt.

Á saga hins grunaða að vera sú að hann hafi beðið þriðja manninn um að fara að sofa sökum þess að hann var ofurölvi. Sá var sitjandi og á hinn grunaði að hafa reynt að þvinga manninn til að leggjast niður. Brutust þá út slagsmál sem Dahle reyndi að stöðva og réðist hinn grunaði þá á hann með fyrrgreindum afleiðingum. VG segir að vitni hafi aftur á móti sagt hinn grunaða hafa náð í hníf í kjölfar gríns um að einn gestanna í samkvæminu, sem á þessum tíma var farinn að sofa í næsta húsi, hefði níu líf þar sem hann lifði af slys á ótrúlegan hátt fyrir nokkrum árum. Hinn grunaði hafi viljað athuga hvort það stæðist og reyndi Dahle þá að stöðva hann. Lögreglan í Valle hefur ekki viljað tjá sig um þessar mögulegar lýsingar VG á atburðinum.

Á mánudaginn var haldin minningarathöfn fyrir starfsmenn útvarpsstöðvarinnar í Valle. „Ég held að allir bæjarbúar syrgi þegar eitthvað þessu líkt gerist. Flestir í þorpinu þekkja hver annan og Dahle var mjög þekktur. Þetta er mjög sorglegt,“ sagði Ørnulf Hasla, yfirmaður útvarpsstöðvarinnar, í samtali við VG. Bæjarstjórinn sagði morðið hafa haft mikil áhrif á andrúmsloftið í bænum enda búi þar aðeins um 1.300 manns og allir kunnugir hver öðrum.

Íslendingurinn hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert