Hæfileikasamfélag á Stöðvarfirði

Frá Stöðvarfirði
Frá Stöðvarfirði Ljósmynd/Gígja Sara Björnsson

„Markmiðið með Pólar Festival er að vekja athygli á Stöðvarfirði og því frumkvöðlastarfi sem fer þar fram,“ segir Marteinn Sindri Jónsson, einn aðstandenda Pólar Festival, sem hann lýsir sem menningar- og listahátíð sem byggir á hugmyndafræði hæfileikasamfélagsins (e. skill sharing). Hátíðin verður haldin dagana 12. til 14. júlí á Stöðvarfirði. Á sama tíma verður hátíðin „Maður er manns gaman“ á Stöðvarfirði, en Pólar Festival er haldið í samstarfi við þá hátíð.

„Hæfileikasamfélag eins og þetta er þekkt úr heimi tónlistarinnar, þar deila menn hljóðfærum og græjum og kynnast þannig nýjum listamönnum og nýrri tónlist. Hugarfarið í tónlist hefur alltaf verið svona. Við vonum að þessi hugsun nái fótfestu víðar,“ segir Marteinn. „Þetta er í raun mannauðssamfélag frekar en fjármagnsauðssamfélag. Þetta er ekki rekið í hagnaðarskyni og allir þátttakendur fá mat og gistingu, en láta í staðinn sína þekkingu og kunnáttu.“

Sókn í nýsköpun

Hann segir Stöðvarfjörð eitt margra lítilla sjávarþorpa sem hafi átt undir högg að sækja undanfarna áratugi af sömu ástæðum og flest önnur þorp; kvótinn fór en fólkið varð eftir. „Frystihúsið í bænum stóð lengi vel ónotað. Í staðinn fyrir að rífa það tók hópur af fólki það yfir og nýtir það núna í atvinnuuppbyggingu. Fólk hérna sér tækifæri til uppbyggingar meðal annars í nýsköpun og skapandi greinum,“ segir Marteinn. „Í frystihúsinu er verið að koma upp eldhúsi til að framleiða matvæli sem eru vottuð beint frá býli, trésmíðaverkstæði og sköpunarmiðstöð með tónleikaaðstöðu í gamla frystiklefanum,“ en hátíðin verður aðallega í gömlu salthúsi í bænum.

Gamla kirkjan á Stöðvarfirði var afhelguð í kringum aldamót og hefur verið farfuglaheimili síðan. „Þetta gerist stuttu áður en Ísland verður stór ferðamannastaður. Þó svo að fólki hafi fækkað á staðnum þá er ennþá frumkvæði og kraftur hérna, og það er eitthvað sem við viljum taka þátt í,“ en aðstandendur hátíðarinnar, sem eru á aldrinum 21 til 26 ára, eiga öll einhver tengsl við Stöðvarfjörð. Auk Marteins eru skipuleggjendur hátíðarinnar þau Gígja Sara Björnsson, Katrín Helena Jónsdóttir og Viktor Pétur Hannesson.

Marteinn rifjar upp frétt mbl.is um „eitthvað annað“ og talar um mikilvægi þess að hlúa að fjölbreyttum atvinnumöguleikum. „Svona skapandi nýsköpun er einn af slíkum möguleikum, og LungA er gott dæmi um það. Nú stendur einmitt til að opna lýðháskóla á Seyðisfirði með 20 til 30 nemendum. Það mun gjörbreyta bæjarlífinu þar að hafa tugi ungmenna þar með fasta vetrarbúsetu. Með þessari hátíð erum við kannski að sýna í verki hvernig við viljum hafa hlutina.“

Fardagar um helgina

Um helgina fer fram kynning á verkefninu Góðgresi sem einn skipuleggjenda Pólar Festival, Viktor Pétur Hannesson auk Bjarka Þórs Sólmundssonar, munu keyra í sumar. Verkefnið gengur út á vitundarvakningu um hvað er illgresi, en Marteinn segir ýmsar gróðurtegundir sem Íslendingar líti á sem illgresi og arfi séu að skjóta rótum sem hnossgæti í norrænni og íslenskri matargerð úti í heimi. „Þetta verður kynnt á bakgarði Santa Karamba á Laugarvegi, til hliðar við Kjörgarð, en Pólar Festival verður einnig kynnt þar,“ segir Marteinn.

Pólar Festival á facebook

Góðgresi á facebook

Frá Stöðvarfirði
Frá Stöðvarfirði Ljósmynd/Viktor Pétur Hannesson
Frá Stöðvarfirði
Frá Stöðvarfirði Ljósmynd/Viktor Pétur Hannesson
Frá Stöðvarfirði
Frá Stöðvarfirði Ljósmynd/Viktor Pétur Hannesson
Frá Stöðvarfirði
Frá Stöðvarfirði Ljósmynd/Viktor Pétur Hannesson
mbl.is