Skattalækkanir ýti undir neyslu

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. mbl.is/Rósa Braga

„Efnahagsumhverfið getur breyst mjög hratt á komandi misserum. Heilt yfir þá gætu gefin loforð haft jákvæð áhrif á hagvaxtarhorfur. Skattalækkanir og skuldaleiðrétting bæta fjárhagsstöðu heimila og  þar með svigrúm þeirra til aukinnar neyslu,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka.

Sem kunnugt er boðar ný ríkisstjórn skattalækkanir og eiga þær fyrstu að líta dagsins ljós á komandi sumarþingi sem hefst eftir sex daga. Hagvaxtarspár hafa sem kunnugt er verið endurskoðaðar niður á við. Nú er búist við 3% hagvexti á næsta ári en í febrúar var spáð 3,7% vexti, að því er fram kemur í greinargerð Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands.

Styrking krónu á síðustu vikum þótti gefa tilefni til verðlækkanna en fram kemur á vef Hagstofunnar að undanfarna þrjá mánuði hafi vísitala neysluverðs hækkað um 0,3% sem jafngildir 1,4% verðbólgu á ári og 0,6% verðhjöðnun á ári fyrir vísitöluna án húsnæðis.

Mikill framleiðsluslaki í hagkerfinu

Að sögn Ásdísar gætu boðaðar aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar í skattamálum ýtt undir frekari hagvöxt en til að byrja með þurfi þær ekki endilega að kalla fram aukna verðbólgu, enda sé mikill framleiðsluslaki í hagkerfinu. Þá telur hún að lækkanir á neyslusköttum og öðrum gjöldum eigi jafnframt að draga úr verðbólguþrýstingi.

„Þá er hugsanlegt að fjárfesting taki fljótt við sér. Hins vegar kallar auðvitað aukin innlend eftirspurn á meiri innflutning. Vegna þessa gefur krónan eftir eða viðskiptaafgangurinn skreppur saman, einkum án tilkomu erlendrar fjárfestingar.

Ef hagkerfið nær sér á strik og Seðlabankinn sér verðbólguna fjarlægjast verðbólgumarkmið þá tel ég að hann muni hækka stýrivexti á nýjan leik,“ segir Ásdís.

mbl.is

Bloggað um fréttina