Fengu sendan matseðil en ekki þingdagskrá

Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar segir formenn stjórnarandstöðuflokkanna engar upplýsingar hafa fengið hvað standi til að gera á sumarþingi eða hvenær það verði sett. Hins vegar hafi þingmenn fengið sendan matseðilinn úr þingmötuneytinu og þar komi fram að þing verði sett á fimmtudag.

„Við formenn stjórnarandstöðuflokkanna óskuðum fundar með formönnum stjórnarflokkanna fyrir tveimur vikum,“ skrifar Árni Páll á Facebook-síðu sína.

 „Formlega var sú beiðni ítrekuð fyrir rúmri viku og margítrekuð alla síðustu viku. Engin svör frá forsætisráðherra. Við höfum ekkert heyrt um hvað til standi að gera á sumarþingi eða hvenær það verði sett. Eftir er líka að finna út hvað býr í loforðum nýrrar ríkisstjórnar um aukið samráð við stjórnarandstöðu. 

Við þingmenn fengum hins vegar sendan matseðilinn í þingmötuneytinu í gærkvöldi fyrir þessa viku. Þar kemur fram að þing verði sett á fimmtudag. Það er skrítinn framgangsmáti að ný ríkisstjórnarforysta kjósi að boða þingsetningu í matseðli þingsins, frekar en að tala við stjórnarandstöðuna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina