Breyta ásýnd Borgartúnsins

Meiri gróður, nýjar gangstéttir beggja vegna götunnar, nýir ljósastaurar, hjólastígar og miðeyjar í götu til að auka öryggi gangandi vegfarenda eru meðal breytinga sem gerðar verða á Borgartúni í sumar. Eftir framkvæmdirnar mun Borgartúnið verða falleg nútímaleg borgargata, segir Davíð Baldursson verkefnisstjóri, í frétt á vef Reykjavíkurborgar.

 Kynningarfundur um framkvæmdirnar verður haldinn fimmtudaginn 6. júní kl. 14.00 í Borgartúni 12 – 14, 7. hæð.  Þeir sem vilja kynna sér málið nánar eru eindregið hvattir til að mæta.  Til að takmarka áhrif framkvæmda á umferð verður þeim áfangaskipt og verður sú verkáætlun kynnt á fundinum.

 Aðskildir hjólastígar með einstefnu verða lagðir beggja vegna götunnar milli Katrínartúns (Höfðatúns) og Sóltúns. Vestan Katrínartúns verður lagður hjólastígur sunnan götunnar. Núverandi gangstéttar verða endurnýjaðar og einnig verður ný gangstétt lögð sunnan götunnar þar sem hana vantar. Eftir breytingar verða því samfelldar gönguleiðir beggja vegna götunnar.

Með framkvæmdunum verður bætt öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.  Gróðursvæði verður komið fyrir milli götunnar og hjólastíga. Skipt verður um ljósastaura í götunni. Fjórum miðeyjum verður bætt við til að auðvelda gangandi vegfarendum að fara yfir götuna.

 Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við verkið hefjist í lok júní og verður stefnt að verklokum 1. nóvember. Áætlaður heildarkostnaður við endurgerð Borgartúns frá Snorrabraut að Sóltúni er 230 milljónir króna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert