„Grilltímabilið hefst í dag“

Aðstandendur forvarnaverkefnisins á kynningarfundinum
Aðstandendur forvarnaverkefnisins á kynningarfundinum mbl.is/Júlíus

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu, ásamt samstarfsaðilum, ýtti í dag úr vör forvarnaverkefni um meðferð og meðhöndlun á gasi. „Grilltímabilið getur því hafist í dag,“ sagði Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, á kynningarfundi í úrhellisrigningu í dag. „Markmiðið hjá okkur var að kynna þetta áður en það hæfist og ég vona að það séu ekki við sem erum að hafa þessi áhrif á veðrið.“

„Það hefur orðið mikil vitundarvakning, bæði eftir gassprenginguna sem varð í Ofanleitinu í fyrrahaust og gaslekann í Þjórsárdal,“ segir Jón Viðar. „Eftir sprenginguna leitaði fjöldi fólks til okkar með fyrirspurnir um hvort gas væri hreinlega hættulegt.“ Hann segir svo alls ekki vera ef rétt er farið með það. „Gas er mikið notað til eldunar í Evrópu og skapar ekki hættu ef það er meðhöndlað rétt.“

Jón Viðar leggur áherslu á nauðsyn þess að láta fagmenn sjá um allar gaslagnir í húsum með gaseldavél, og að skipt sé reglulega um slöngur og þrýstijafnara á gasgrillum, en slík tæki gangi úr sér við notkun og einnig við að dvelja úti yfir íslenskan vetur. Einnig er mjög mikilvægt að hafa gaskúta ekki undir grilli meðan grillað er, því það getur skapað mikla hættu. Engin hætta sé hins vegar fólgin í því að geyma kútinn milli grillanna.

Stórt samstarfsverkefni um forvarnir

Forvarnaverkefnið er samstarfsverkefni slökkviliðsins og sölu- og þjónustuaðila á gasi og gastengdum varningi á borð við gasgrill. Það felst í sameiginlegu kynningarefni um rétta notkun og meðhöndlun á gasi í þeim tilgangi að fyrirbyggja slys og dauðsföll af völdum gass.

Gasskynjarar, slöngur og þrýstijafnarar eru meðal þeirra tækja sem rétt er að notast við til að draga úr líkum á slysi af völdum gass. Skynjararnir kosta á bilinu 9.000 til 10.000 krónur, en það er lítil upphæð fyrir tæki sem getur bjargað mannslífum. Þá er hægt að kaupa hjá helstu söluaðilum gass og gasgrilla.

Samstarfsaðilar slökkviliðsins í verkefninu eru N1, Gasfélagið, Olís, Ísaga, MegaGas, Raftækjasalan, Atlantsolía, Byko, Bauhaus, Gastec og Grillbúðin og er þetta í fyrsta sinn sem þessi hópur sameinar krafta sína í forvarnaskyni. Jón Viðar sagði mikið ánægjuefni að þessir aðilar, sem alla jafna eru í harðri samkeppni, taki höndum saman um þetta verkefni.

Upplýsingar um meðferð og meðhöndlun gass má nálgast hér

Hér má sjá eitt af fimm myndböndum sem unnin voru í tengslum við verkefnið.

Á myndinni sjást grind úr gasgrilli, ónýtur brennari, bráðnaður gaskútur …
Á myndinni sjást grind úr gasgrilli, ónýtur brennari, bráðnaður gaskútur og stálkútur sem hefur lent í eldi. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert