Skriður í Köldukinn eða Kaldakinn?

Aurskriða í Köldukinn í lok maí.
Aurskriða í Köldukinn í lok maí. mbl.is

Í kjölfar fregna af aurskriðum í Köldukinn í Þingeyjarsýslu fóru margir að velta fyrir sér réttri beygingu sérnafnsins, þ.e. hvort tala ætti um Kaldakinn eða Köldukinn. Heimamenn tala flestir um Köldukinn en hjá Árnastofnun fengust þær upplýsingar að frá fornu fari hefði verið talað um Kaldakinn. Í þessum efnum sé þó ekki hægt að tala um rétt eða rangt - einfaldlega mismunandi siði.

Hallgrímur J. Ámundason, verkefnisstjóri hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, fletti nafninu Kaldakinn upp og að hans sögn er það til sem bæjarnafn á fjórum stöðum auk sveitarinnar á Norðurlandi. „Ég finn dæmi um þessa sveit í Þingeyjarsýslu bæði í Landnámabók og Íslendinga sögu. Þar er það óbeygt, þ.e. þar er sagt Kaldakinn í öllum föllum, eins og fyrriparturinn sé nafnorð en ekki lýsingarorð en síðan hefur það þróast í ýmsar áttir“. Haft var samband við Óskar Halldór Tryggvason á bænum Fellsseli í Köldukinn og sagði hann nær alla á svæðinu tala um Köldukinn. „Manni finnst það alltaf skrýtið þegar er talað um Kaldakinn, maður er vanari hinu.“

Hallgrímur segir að þetta svipi til þess þegar ýmist sé talað um Breiðavík eða Breiðuvík. „Breiðavík er til á fimm stöðum á landinu. Hún hefur upphaflega heitið Breiðavík í aukaföllum á öllum stöðunum en síðan þróast hver staður sérstaklega þannig að á sumum stöðum á seinni öldum er talað um Breiðuvík í aukaföllum en annars staðar Breiðavík. Þetta virðist vera nákvæmlega sama sem gerðist með Kaldakinn eða Köldukinn.“

Reynt að fá botn í skrýtin örnefni

Á vef Þingeyjarsveitar birtist fréttin „Kaldakinn um Kaldakinn“ árið 2004. Þar er vísað í viðtal við Baldvin Kr. Baldvinsson í Torfunesi á Rás 2 og segir í fréttinni: „Baldvin minnti á að Kaldakinn er ekki nefnd svo vegna þess að þar sé kaldara en annars staðar heldur heitir hún eftir vindstyrknum kalda sem nú er því miður að verða úrelt hugtak - ætli hún héti ekki Tíumetrarásekúndukinn, eða eitthvað á þá leið ef þessi yndisfagri staður á jarðríki fengi nafngiftina nú.“ Hallgrímur segir þessa skýringu vel geta verið rétta en í tilfellum sem þessum sé oft um að ræða „eftir á“-skýringar. „Menn reyna að fá botn í skrýtin örnefni með því að túlka þau á ákveðna vegu. Það er ómögulegt að segja fyrir um hvað vakti fyrir fólki á 8. eða 9. öld þegar nafnið varð líklega til. Það er ekki víst að það hafi verið að hugsa það sama og menn á 21. öld á netinu.“

Er þá réttast að tala um Kaldakinn en ekki Köldukinn fyrir norðan? „Við myndum aldrei segja að eitt sé rétt og hitt rangt,“ segir Hallgrímur en benda má á beygingarlýsinguna sem er að finna á vef Árnastofnunar. Þar eru tvö mismunandi aukaföll gefin upp. „Það eru eflaust mismunandi siðir í kringum bæina fjóra sem bera nafnið og sveitina. Frá fornu fari er talað um Kaldakinn en það er alls ekki ólíklegt að það séu til tvímyndir fyrir norðan, jafnvel í sömu sveit. Það er bara mjög algengt. Fólk á einum bænum getur sagt Kaldakinn um Kaldakinn en aðrir Kaldakinn um Köldukinn. Maður sér það iðulega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert