Andlát: Sigfús Jóhann Johnsen

Sigfús Jóhann Johnsen.
Sigfús Jóhann Johnsen.

Sigfús Jóhann Johnsen lést miðvikudaginn 5. júní á hjúkrunarheimilinu Slottet í Kaupmannahöfn. Hann fæddist 27. apríl árið 1940.

Sigfús lauk BSc-prófi í eðlis- og stærðfræði frá háskólanum í Kaupmannahöfn árið 1960 og meistaraprófi í tilraunaeðlisfræði frá sama skóla árið 1966.

Að námi loknu starfaði Sigfús við Kaupmannahafnarháskóla í 13 ár áður en hann var ráðinn dósent í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands þar sem hann hlaut framgang í starf prófessors árið 1987. Eftir að Sigfús fluttist aftur til Kaupmannahafnar árið 1997 var hann í virku samstarfi við Raunvísindastofnun/Jarðvísindastofnun HÍ um samsætumælingar á Grænlandskjörnum og rekstur massagreina stofnunarinnar.

Sigfús starfaði mestallan sinn starfsaldur við margvíslegar rannsóknir á djúpkjörnum úr Grænlandsjökli og nýtur mikillar virðingar fyrir ötult og óeigingjarnt starf á því sviði. Hann tók þátt í 36 borleiðöngrum á jöklinum þar sem hann stjórnaði mörgum djúpborunum. Auk Grænlandsborana hafa stjórnendur flestra djúpborana á Suðurskautslandinu numið bortækni hjá Sigfúsi.

Sigfús er heimskunnur fyrir framlög sín til jöklarannsókna og hlaut fjölda alþjóðlegra viðurkenninga sem brautryðjandi við hönnun og smíði ísbora sem og við öflun og túlkun margvíslegra vísindagagna á sviði eðlisfræði jökla og þróunar loftslagsbreytinga síðustu 150 þúsund árin.

Sigfús hlaut Seligman-kristallinn, æðstu viðurkenningu Alþjóðasambands jöklafræðinga (International Glaciological Society), en kristallinn er aðeins veittur þeim sem hafa unnið framúrskarandi störf á sviði jöklarannsókna. Margrét Þórhildur Danadrottning veitti Sigfúsi Dannebrogs-riddaraorðu fyrir fræðistörf sín, jafnframt því var Sigfús handhafi Hans Oeschger-orðu Evrópusambands jarðeðlisfræðinga (EGS).

Árið 2010 var Sigfús gerður að heiðursdoktor við jarðvísindadeild Háskóla Íslands og heiðursfélaga í Jöklarannsóknarfélagi Íslands. Sigfús er höfundur yfir tvö hundruð vísindagreina, þar af 35 greina í Nature og Science. Hann er í úrvalsflokki vísindamanna, „highly cited researcher“.

Sigfús lætur eftir sig eiginkonu, Pálínu Matthildi Kristinsdóttur, og þrjú uppkomin börn, Kristin Johnsen, Jóhann Johnsen og Valgerði Guðrúnu Johnsen, ásamt tengdabörnum og barnabörnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert