Fæstir keisaraskurðir á Íslandi

Öruggt og gott er að fæða barn á Íslandi samkvæmt …
Öruggt og gott er að fæða barn á Íslandi samkvæmt nýrri skýrslu. Ásdís Ásgeirsdóttir

Best er að fæðast á Íslandi samkvæmt nýrri skýrslu Europersitat um heilsu og heilbrigðisþjónustu þungaðra kvenna og nýbura í Evrópu. Skýrslan er byggð á upplýsingum frá árunum 2006-2010 og koma 29 Evrópulönd að henni.
Rannsóknin sýnir að miðað við önnur lönd er áhætta meðgöngu og fæðingar lítil á Ísland og auk þess mjög öruggt að fæðast hér þar sem burðarmáls-, ungbarna- og barnadauði er hvergi lægri

Við kynningu skýrslunnar sagði landlæknir að mikilvægt væri að kona og barn fengju þá góðu þjónustu sem þau eiga skilið, því það sé upphafið að góðri heilsu til lengri tíma. Mikilvægt sé því að skoða þessi gögn og meta í samræmi við nágrannalönd.

Frjósemi mest á Íslandi

Í skýrslunni kemur fram að frjósemi er hæst á Íslandi og mun hærri en annars staðar á Norðurlöndum, en meðaltalið hér er 2,2 börn á konu. Til samanburðar má nefna að ef talan er komin undir 1,4 börn á konu telst þjóðin vera í útrýmingarhættu. Talan þarf að vera í kringum 2 til þess að um fjölgun sé að ræða.

Hér á landi eru fleiri ungar mæður en í hinum Norðurlöndum, þó svo að hlutfallið sé mun lægra en á Bretlandseyjum og í löndum Austur-Evrópu. 3,3% mæðra á Íslandi eru undir tvítugu þegar þær eiga. Tíðni fjölburafæðinga er fremur lág hér, eða 14,3 á 1.000 fæðingar, sem er svipað og annars staðar á Norðurlöndunum, utan Danmerkur, þar sem tíðnin er 21 af 1.000. Talið er að þessa lágu tíðni hér á landi megi að nokkru leyti rekja til breytinga sem gerðar voru árið 2009 á reglugerð um tæknifrjóvgun, þar sem óheimilt var gert að setja fleiri en einn fósturvísi í konu í senn þegar hún er undir 36 ára aldri.

Fæstir keisaraskurðir

Tíðni keisaraskurða er lægst á Íslandi, eða 14,8%, en hún er einnig lág eða undir 20% á öðrum Norðurlöndum. Meðaltalið í Evrópu er 25,2%. Flestir keisaraskurðir eru framkvæmdir á Kýpur, þar sem þeir eru 52,2% allra fæðinga.

Hér á landi eiga langflestar fæðingar sér stað á Landspítalanum, en á Íslandi voru um 72% fæðinga á sjúkrastofnun. Heimafæðingar eru fáar, en þær eru á svipuðu reiki og í Svíþjóð og Danmörku.

Tíðni spangarklippinga telst mjög lág hér á landi, en tíðni spangarrifa telst þó aftur á móti nokkuð há, eða 4,2%. Ragnheiður I. Bjarnadóttur, fæðingarlæknir, sagði að velta mætti fyrir sér af hverju þetta stafaði, en hluta ástæðunnar mætti ef til vill rekja til þess að spangarklippingar væru sjaldgæfar. Þetta tvennt færi að einhverju leyti saman og horfa þurfi því á þetta í samhengi.

Gögn um reykingar á meðgöngu, BMI stuðul móður, brjóstagjöf, atvinnu og menntun vantar hér á landi. Lagt var til að farið verði í að safna þeim gögnum með markvissari hætti.

Ekki nógu góð útkoma varðandi Apgar skilmerkin

Útkoma hvað varðar Apgar skilmerkin taldist þó ekki nógu góð og gengur að vissu leyti þvert á aðrar niðurstöður rannsóknarinnar, en 2,1% barna mældust undir fjórum stigum á árunum 2006-2009 við fimm mínútna Apgar próf. Þegar Apgar skilin eru notuð er verið að meta þörf á endurlífgun barna og svörun. Apgar stig eru mæld einni og fimm mínútum eftir fæðingu og tekið er meðal annars mið af gráti barns, vöðvaspennu, hjartslætti og litarhafti.

Fram kom að skýringin á þessu gætu legið í missamræmi í þýðingum skilmerkjanna. Þegar þau voru þýdd á íslensku var 1 stig gefið fyrir grátur, en 2 stig fyrir kröftugan grátur. Í löndunum í kringum okkur hefur 1 stig verið gefið fyrir grettu eða veikan grát og 2 stig fyrir venjulegan grát. Mögulega eru kröfurnar hér á landi strangari.

Að lokum áréttaði Ragnheiður að þennan góða árangur mætti ekki taka sem sjálfsagðan og að  standa þurfi vörð um hann. „Ung- og nýbarnadauði var hér mestur í allri Evrópu á 18. og 19. öld. Við höfum farið úr því, upp í að vera í fremstu röð.“

Hér má lesa skýrsluna í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert