Morðrannsókn í Valle stendur enn yfir

www.norden.org

Íslendingur sem er grunaður um að hafa orðið öðrum manni að bana í Valle í Noregi situr enn í gæsluvarðhaldi, en rannsókn málsins stendur enn yfir. Norska lögreglan segir að það geti liðið nokkrir mánuðir þar til málið verður tekið fyrir hjá dómstólum.

Lögreglan í Valle segir í samtali við mbl.is, að búið sé að yfirheyra Íslendinginn aftur auk þess sem búið er að taka skýrslu af um 10 vitnum.

Íslendingurinn, sem er 38 ára gamall, er grunaður um að hafa veitt útvarpsmanninum Helge Dahle banvæn stungusár í samkvæmi aðfaranótt sunnudagsins 26. maí.

Lögreglan telur sig hafa nokkuð skýra mynd af því sem gerðist um nóttina en tekur fram að tæknirannsókn standi enn yfir. Auk þess sem nokkur atriði séu enn óljós sem þurfi að skoða betur. Líklegt þykir að það muni nokkrir mánuðir líða áður en málið fer fyrir dómstóla; mögulega ekki fyrr en í haust. Það eigi þó eftir að koma betur ljós.

Þá segir lögreglan að rannsóknin bendi til þess að Íslendingurinn hafi verið undir áhrifum áfengis umrædda nótt. Þá hefur hann viðurkennt að hafa haldið á hnífnum en hann hefur hins vegar ekki tekið afstöðu til morðákærunnar.

Fram hefur komið í norskum fjölmiðlum, að talsverðs magns áfengis hafi verið neytt um nóttina og að Íslendingurinn hafi sagt minni sitt vera afar gloppótt.

Íslendingurinn, sem hefur verið búsettur í Noregi í 13 ár, var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Venjan er sú að menn eru í haldi þangað til málið fer fyrir dómstóla og því má búast við að gerð verði krafa um framlengingu þegar varðhaldið á að renna út. Lögreglan bendir á að menn séu vanalega ekki úrskurðaðir í lengra gæsluvarðhald í einu heldur en fjórar vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert