Vantar lækna á lyflækningasviðið

Það vantar lækna á lyflækningadeildina.
Það vantar lækna á lyflækningadeildina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Læknaráð Landspítala lýsir þungum áhyggjum yfir bágri mönnun almennra lækna á lyflækningasviði Landspítala. Almennir læknar á Landspítala, þar með talið bæði deildarlæknar og læknakandídatar, gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki í þeirri læknisþjónustu sem Landspítalinn veitir, bæði við móttöku sjúklinga, greiningu og meðferð sjúkdóma.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi læknaráðs í gær.

Langvinnur skortur hefur verið á deildarlæknum á lyflækningasviði og eins og staðan er í dag er aldeilis óljóst hvort eða hvenær nýútskrifaðir kandídatar hefja störf við spítalann í sumar, segir m.a. í ályktuninni.

Ljóst er að ef læknakandídatar skila sér ekki til vinnu eins og áætlað er hefur það víðtæk og lamandi áhrif á starfsemi spítalans á viðkomandi sviðum.

 „Til að mæta mönnunarþörf á almennum læknum á spítalanum yfir sumartímann hafa einnig verið ráðnir rúmlega þrjátíu læknanemar sem hafa lokið fjórum til fimm árum í læknisfræði til að gegna störfum deildarlækna og læknakandídata, þar af allt að helmingur á lyflækningasviði. Læknanemar eru að okkar mati á engan hátt tilbúnir að taka á sig fulla ábyrgð og skyldur læknis gagnvart sjúklingum sem leita sér lækninga á Landspítala. Ljóst er að læknanemarnir þurfa að vinna náið og undir stöðugri leiðsögn sérfræðinga sem þegar eru ofhlaðnir störfum,“ segir í ályktuninni.

 Læknaráð Landspítala hvetur stjórnvöld og yfirstjórn Landspítalans til að finna lausn á málum kandídata þegar í stað til að tryggja að þeir komi til vinnu sem allra fyrst, þannig að hægt verði að tryggja áframhaldandi óbreytta þjónustu spítalans og öryggi sjúklinga sem til hans leita. Einnig telur læknaráð mikilvægt að gera það að forgangsverkefni að efla aðstöðu, aðbúnað og kennslu almennra lækna á lyflækningasviði til að tryggja eðlilega nýliðun og mönnun almennra lækna á sviðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert