Langt gengið í afnámi trúnaðarskyldu

mbl.is/Sverrir

Ekki verður annað sagt en að með frumvarpi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um breytingu á lögum um Hagstofu Íslands sé gengið mjög langt í því að afnema það sem menn telja að sé eðlilegur trúnaður um persónuleg málefni einstaklinga í viðskiptum sínum við fjármálafyrirtæki. Þetta kom fram í ræðu Sigríðar Á. Andersen, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, í umræðum um frumvarpið á Alþingi í fyrradag.

Með frumvarpinu, sem er hluti af tíu þrepa áætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna, er Hagstofunni veitt heimild í þágu hagskýrslugerðar til að óska eftir upplýsingum af fjárhagslegum toga frá fyrirtækjum og einstaklingum í atvinnurekstri um viðskipti þeirra við þriðja aðila.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að tilefni breytinganna sé nauðsyn áreiðanlegra upplýsinga um skuldir heimila og fyrirtækja frá fjármálastofnunum. Undir upplýsingagjöf af þessu tagi falla meðal annars upplýsingar um lánveitingar, hver sé lántaki, skilmála (t.d. lengd, vaxtakjör, hvort lánið sé verðtryggt eða ekki og svo framvegis), hvort lánið sé íslenskt eða erlent, stöðu láns, greiddar afborganir og vexti sem og vanskil og úrræði í þágu skuldara tengd láninu (t.d. hin svokallaða 110% leið). Þá segir í 3. grein frumvarpsins, sem kveður á um ofangreindar heimildir, að ákvæði annarra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu víki fyrir ákvæðum greinarinnar. Í greinargerð frumvarpsins er þetta ákvæði skýrt sem svo að þar sé m.a. horft til 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

Felur í sér hættu á misnotkun

Í greinargerð frumvarpsins eru áhrif þess metin. Þar segir m.a. að þegar persónuupplýsingum er safnað í miklum mæli þá feli slíkt ávallt í sér hættu á misnotkun sem og að óráðvandir aðilar komist í gögnin. Jafnframt eigi ekki að vanmeta mikilvægi bankaleyndar og trúnaðartrausts milli fjármálastofnana og viðskiptavina þeirra. „Við gerð frumvarpsins og með hliðsjón af gildandi lögum um Hagstofu Íslands er örugg meðferð viðkomandi gagna tryggð af fremsta megni og að þau verði eingöngu nýtt í þágu útgáfu tölfræðilegra upplýsinga sem ekki verður hægt að rekja til einstaklinga eða einstakra fyrirtækja. Hagstofa Íslands hefur mikla reynslu í meðferð upplýsinga af þessu tagi og þar eru til staðar verkferlar og öryggiskerfi sem hingað til hafa ekki sætt gagnrýni,“ segir í greinargerðinni.

Þjóðfélagslegir hagsmunir

Þá segir jafnframt í greinargerðinni að þegar horft sé til þess hversu mikilvægt það sé út frá þjóðfélagslegum hagsmunum að vinna tölfræðilegar upplýsingar um skuldavanda bæði heimila og fyrirtækja þá verði að telja að þeir vegi þyngra en hinir hugsanlegu ókostir sem greint er frá að ofan, sem í raun séu hverfandi þegar betur er að gáð.

Einnig er bent á það í greinargerð frumvarpsins að Persónuvernd hafi gert athugasemdir við fyrri frumvörp um þetta efni, þ.ám. við frumvarp Gylfa Magnússonar, þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, frá árinu 2010 um rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila. „Við gerð þessa frumvarps hefur verið tekið tillit til þessara varnaðarorða Persónuverndar. Þannig er gert ráð fyrir að hinar nýju heimildir skuli endurskoðaðar fyrir árslok 2017. M.a. skuli þá meta hvort þjóðfélagsleg nauðsyn fyrir slíkri tölfræði sé enn til staðar,“ segir í greinargerðinni.

AFNÁM BANKALEYNDAR

Tilgangurinn ekki nógu ljós

„Mér finnst tilganginum ekki nægilega lýst í þessu frumvarpi,“ segir Sigríður Á. Andersen í samtali við Morgunblaðið og bætir við: „Það er erfitt að átta sig á því hvort þetta varði einhverjar upplýsingar um til dæmis greiðsluvanda heimilanna, sem að kallaður hefur verið svo, eða hvort tilgangurinn lúti að einhverjum sértækum aðgerðum á einhvern hátt.“ Þá segist hún velta því fyrir sér, óháð tilgangi frumvarpsins, hvort ekki sé hægt að ná markmiðum frumvarpsins með einhvers konar vægari aðgerðum.

Aðspurð hvort frumvarpið feli í sér afnám á bankaleynd segir Sigríður: „Einhver kynni að segja að það væri með öllu verið að afnema hana með þessu.“ Hún bætir við að jafnframt sé óljóst í frumvarpinu hvort upplýsingarnar eigi að vera dulkóðaðar. Bendir hún á að ef ætlunin sé að upplýsingarnar séu dulkóðaðar þá þurfti slíkt að koma skýrt fram í frumvarpinu sjálfu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert