Ánægjulegt hve margir hafa skoðun á málinu

mbl.is/Sigurður Bogi

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra segir ánægjulegt að svo margir hafi skoðanir á veiðigjaldinu líkt og raun ber vitni en rúmlega 30 þúsund manns hafa ritað undir áskorun til Alþingis að breyta ekki lögum um veiðigjald.

Hann segir að skoðanir verði hins vegar að byggjast á réttum upplýsingum. Til að mynda standi ekki til að leggja niður veiðigjaldið. Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Hann segir að tekjur ríkissjóðs af atvinnugreininni séu að aukast þrátt fyrir að veiðigjaldið lækki.

Sigurður Ingi ætlar að ræða við forsvarsmenn undirskriftarsöfnunarinnar í dag og hann vill heyra sjónarmið þeirra. Hann segir að breyta verði lögunum þar sem þau standist ekki. Ekki sé hægt að svara því já eða nei hvort setja eigi málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að frumvarpið feli einkum í sér breytingar á hinu sérstaka veiðigjaldi og kveður það bæði á um hækkanir og lækkanir í því samhengi. Þannig stendur til að lækka sérstaka veiðigjaldið í bolfiski úr 23,20 krónum á hvert þorskígildiskíló (ÞÍKG) niður í 7,38 kr./ÞÍKG og hækka sérstaka veiðigjaldið í uppsjávarfiski úr 27,50 kr./ÞÍKG upp í 38,25 kr./ÞÍKG. Engin breyting er þó gerð á almenna veiðigjaldinu sem verður áfram 9,5 kr./ÞÍKG.

Eins og Morgunblaðið greindi frá síðastliðinn laugardag munu þessar breytingar hafa í för með sér hækkanir fyrir sumar útgerðir en lækkanir fyrir aðrar og hlaupa þessar breytingar á hundruðum milljóna fyrir stærstu útgerðirnar.

Óframkvæmanleg lög

Í umræðum um frumvarpið á Alþingi í síðustu viku sagði Sigurður Ingi Jóhannsson að núverandi lög um veiðigjöld væru óframkvæmanleg sökum bæði tæknilegra og efnislegra galla.

Morgunblaðið sendi fyrirspurn á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og óskaði eftir svörum við því hvað nákvæmlega það væri sem gerði það að verkum að ekki væri hægt að framfylgja núverandi lögum um veiðigjöld.

Í svari ráðuneytisins segir: „Sjálfstæðri nefnd, veiðigjaldsnefnd, er falið að annast útreikning á sérstöku veiðigjaldi. Það er forsenda að starfi nefndarinnar er að hún ráði yfir nauðsynlegum upplýsingum til starfa sinna, en á því hefur reynst misbrestur. Það hefur sýnt sig að lögin eru ekki nægilega afdráttarlaus um heimildir til nauðsynlegrar öflunar upplýsinga, einkum um verðmæti rekstrarfjármuna, og miðlunar þeirra frá embætti ríkisskattstjóra, til Hagstofu Íslands og þaðan til veiðigjaldanefndar. Þetta er til að mynda skýr afstaða Hagstofu Íslands. Veiðigjaldanefnd vakti athygli ráðuneytisins á þessu í lok mars og síðan hefur verið leitað leiða til úrlausnar. Sú vinna hefur ekki skilað tilætluðum árangri og útséð er um að ekki er unnt að leggja á sérstakt veiðigjald samkvæmt lögunum fyrir komandi fiskveiðiár 2013/2014. Engu að síður er hægt að leggja á almennt veiðigjald samkvæmt lögunum, sem nemur 4,9 milljörðum skv. áætlun fjármálaráðuneytisins.“

Í Morgunútvarpinu kom fram í máli Sigurðar Inga að smærri útgerðir standi höllum fæti fjárhagslega á meðan stóru fyrirtækin gangi vel, greiði niður skuldir og greiði tekjuskatt af hagnaði.

 Hann segir að breytingin sé einungis til eins árs því vonandi verði komið nýtt kerfi við upphaf fiskveiðiársins 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert