„Sammála um að vera ósammála“

Frá fundi Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra með Agnari Kristjáni Þorsteinssyni …
Frá fundi Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra með Agnari Kristjáni Þorsteinssyni og Ísak Jónssyni, sem eru lengst til vinstri á myndinni. mbl.is/Rósa Braga

Agnar Kristján Þorsteinsson og Ísak Jónsson, sem standa fyrir undirskriftasöfnun um óbreytt veiðigjald, segja ekkert nýtt hafa komið fram á kynningarfundi sem Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra boðaði þá á í dag. „Vissum þetta allt fyrir í sjálfu sér,“ segir Ísak í samtali við mbl.is eftir fundinn.

„Hann [Sigurður Ingi] setti fram sín sjónarmið og við settum fram okkar. Við erum örugglega sammála um að vera ósammála,“ segir Agnar.

Sjávarútvegsráðherra fór yfir stöðu málsins á fundinu og afhenti gögn, sem verða gerð aðgengileg á vef Alþingis, sem hann sagði að myndi skýra stöðuna betur.

Ekki hægt að halda áfram að óbreyttu

„Þær upplýsingar sem ég fæ í hendurnar - og þær upplýsingar hafa legið fyrir lengi hérna í ráðuneytinu, fyrrverandi ráðherra hafði allar upplýsingar um það frá því í desember - að það væri ekki hægt að leggja á veiðigjald samkvæmt lögunum, þetta sérstaka veiðigjald. Almenna gjaldið er auðvitað,“ sagði Sigurður Ingi á fundinum í dag.

Hann sagði ennfremur að það hefði ekki verið möguleiki að gera ekkert og standa uppi með óframkvæmanleg lög.

„Við vildum fyrst og fremst klára þetta mál og fara með það fram með þeim hætti sem við erum með í stjórnarsáttmálanum, að þetta er til eins árs. Gefa okkur tíma til þess að fara yfir kerfin að nýju, bæði fiskveiðistjórnunarkerfið og veiðigjöldin, sem tækju gildi frá og með þar næsta fiskveiðiári 2014,“ sagði Sigurður Ingi.

„Við erum að bregðast við með því að reyna að létta afkomutengda gjaldið, þessi sérstöku gjöld, á þann hluta útgerðarinnar sem átti mjög erfitt á þessu ári. Vegna þess einfaldlega að bæði hafa horfur í þeim hluta útgerðarinnar, sem snýr að bolfiski og botnfiski, versnað umtalsvert, eða um 30%, og vísitalan lækkað um 25-6% á árinu. Þegar þeir gátu ekki staðið undir því gjaldi sem er núna á yfirstandi ári þá er augljóst að þeir gætu það ekki með allt að því einum þriðja stöðu verri stöðu eftir á. Þess vegna bregðumst við við með því að færa til þarna á milli þessa útgerðarflokka. Þetta grundvallast á því að við gátum ekki haldið áfram að óbreyttu,“ sagði Sigurður.

Misskilningur að til standi að afnema veiðigjaldið

Helga Sigurrós Valgeirsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, tók fram á fundinum að ekki stæði til að afnema veiðigjöld. Það væri misskilningur.

Sigurður Ingi baðst undan viðtali eftir fundinn í dag, en í pistli sem hann skrifaði á bloggsíðu sína í gær, sagði ráðherra að sérstakt veiðigjald hefði aftur á móti ekki verið lagt á  fyrir komandi fiskveiðiár vegna laga sem samþykkt voru í síðustu ríkisstjórn sem ekki væru framkvæmanleg. Almenna veiðigjaldið eitt og sér, sem væri hinn hluti veiðigjaldanna og er framkvæmanlegur, hefði leitt til lægri gjaldtöku en sú sem nú væri til umfjöllunar.  

„Það er ekki mitt mat eða huglægt að lögin séu ekki framkvæmanleg. Það er viðurkennd staðreynd að gjaldið væri ekki hægt að leggja á. Þessi staðreynd ekki síst gerir það að verkum að við urðum að koma fram með frumvarp um veiðigjöld á sumarþingi. Skortur á gögnum sem styðjast átti við auk heimildar til miðla þeim á milli Ríkisskattstjóra, Hagstofu og veiðigjaldsnefndar eru helstu orsakaþættir hér,“ skrifaði Sigurður Ingi.

Ísak segir að það sé fyrirsláttur hjá ráðherra að lögin séu óframkvæmanleg. Hann segir að málsmetandi hagfræðingar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi bent á hið gagnstæða.

Öllum vafaatriðum verður útrýmt

Rúmlega 30 þúsund manns hafa ritað nafn sitt á undirskriftalistann um óbreytt veiðigjald. Athygli hefur verið vakin á því að margar kennitölur komi frá einni og sömu IP-tölunni, spurðir nánar út í það segir Ísak: „Það verður farið yfir þetta í lokin og öllum vafaatriðum útrýmt. En það er alveg eðlilegt að það séu fleiri kennitölur en IP-tölur, því það er oft bara ein tölva í heimili og margir í heimili. Ég tala nú ekki háskólasvæði eða eitthvað, þá eru margir undir sömu IP-tölunni, það er ekkert óeðlilegt við það,“ segir Ísak.

Agnar bætir því við aðspurður að leitað yrði til þriðja aðila sem muni taka að sér að fara yfir undirskriftalistann. Vonir standa til að ljúka vinnunni þegar umræðu á Alþingi um málið sé lokið. Ekki liggur því fyrir nákvæm tímasetning hvenær það stendur til að afhenda undirskriftirnar með formlegum hætti.

Agnar vonast til þess að hægt verði að finna ásættanlega lausn á málinu á Alþingi fremur en að málið fari beint í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Þess vegna skorum við á Alþingi fyrst því þeirra er valdið,“ segir hann þegar hann er spurður hvort hann vilji sjá málið fara í þjóðaratkvæði.

„Við erum bara tveir af þrjátíu þúsund. Við settum fram ákveðna skoðun á netinu og yfir 30.000 manns hafa tekið undir þá skoðun,“ segir Ísak, en söfnunin hófst formlega 17. júní sl.

„Þetta er líka rússíbani sem við höfum enga stjórn á lengur; vitum eiginlega ekkert hvernig hann endar,“ segir Agnar.

Ráðherra baðst afsökunar á tölvupósti

Helga Vala Helgadóttir lögmaður mætti til fundarins ásamt þeim Ísak og Agnari. Hún lét bóka á fundinum mótmæli við því hvernig ráðherra boðaði til fundarins. „Fundarboðin fóru til vinnuveitanda Agnars. Þessu er mótmælt harðlega og ráðherra spurður að því hvað honum gekk til með því að greina vinnuveitanda hans frá þessu fundarboði,“ sagði Helga Vala og bætti við að í þessu fælist ákveðin hótun frá ráðherra.

Fram kom á fundinum að þarna hefðu verið gerð mistök sem beðist var afsökunar á.

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra og Arnór Snæbjörnsson, starfsmaður sjávarútvegsráðuneytisins.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra og Arnór Snæbjörnsson, starfsmaður sjávarútvegsráðuneytisins. mbl.is/Rósa Braga
Helga Vala Helgadóttir lögmaður mætti til fundarins ásamt þeim Agnari …
Helga Vala Helgadóttir lögmaður mætti til fundarins ásamt þeim Agnari Kristjáni Þorsteinssyni og Ísak Jónssyni. mbl.is/JPJ
mbl.is

Bloggað um fréttina