„Tófan að eyðileggja lífríkið“

Gunnar Þórðarson, 95 ára á Sauðárkróki, stundar æðarvarp í landi ...
Gunnar Þórðarson, 95 ára á Sauðárkróki, stundar æðarvarp í landi Lóns í Viðvíkursveit. ljósmynd/Björn Björnsson

„Það er algjör ördeyða í mófugli vegna refsins. Ég hef aldrei kynnst öðru eins og er nú búinn að vera með varp þarna síðan 1940,“ segir Gunnar Þórðarson, fyrrverandi bifreiðaeftirlitsmaður og lögregluþjónn á Sauðárkróki, sem er á 96. aldursári. Tófur hafa gert honum lífið leitt í æðarvarpi og landskika sem hann er með við Lón í Viðvíkursveit, skammt frá brúnni yfir austari Héraðsvötnin.

Gunnar fer nánast daglega að huga að varplandinu og hefur einnig veitt mikið í vötnunum. Lætur hann aldurinn ekkert aftra sér og segist ætla að halda áfram sínu áhugamáli eins lengi og heilsan leyfir.

Tófur hafa einnig gert sig heimakomnar í sumarbústaðalandi Gunnars við Lón og hann segir marga landeigendur og bændur í Skagafirði hafa sömu sögu að segja. Þannig sjáist varla önd eða aðrir fuglar út með Höfðaströnd og þar megi kenna tófunni um.

Ekki einu sinni séð lóuna

„Það er orðið þannig á Lóni að maður sér ekki lengur mófugl eða nokkurt lifandi dýr. Ég hef ekki einu sinni séð lóuna. Fuglinn sést ekki lengur við brúna eða hólmann eða syndir í vötnunum. Við erum með skógrækt þarna líka þar sem tófa hefur grenjað sig alveg niður undir sjó. Tófan er orðin algjör plága og er að eyðileggja lífríki landsins. Þarna er verið að mismuna náttúrunni og stjórnvöld verða að grípa inn í til að draga úr ójafnvæginu. Ég er alls ekki að segja að útrýma eigi refnum, hann er bráðnauðsynlegur í lífríkinu, en það þarf bara að halda honum í skefjum,“ segir Gunnar og vill að gripið verði til stórtækra aðgerða við að fækka refum í landinu.

Gunnar segir sjálft æðarvarpið hafa tekist sæmilega en það er úti í hólma sem refurinn kemst ekki í. Hins vegar geti æðarfuglinn hvergi tyllt sér niður í næsta nágrenni. Til marks um ágang tófunnar nefnir Gunnar að í nágrenninu hafi tekist að vinna tvö greni en fljótlega hafi aftur verið komin tófa í annað grenið. Mun betur hefur gengið í baráttunni við minkinn á svæðinu, þökk sé minkagildrum sem Gunnar hefur notað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »