Flestar bólusettar gegn HPV-veirunni

Hlutfall stúlkna sem fá HPV-bólusetningu gegn leghálskrabbameini er heldur hærra …
Hlutfall stúlkna sem fá HPV-bólusetningu gegn leghálskrabbameini er heldur hærra hér á landi en í öðrum löndum. mbl.is

Hlutfall stúlkna sem eru bólusettar gegn HPV-veirunni er heldur hærra hér á landi en í öðrum löndum. Þetta segir Þórólfur Guðnason, yfirlæknir á sóttvarnarsviði Landlæknisembættisins. Bólusetningarnar hófust haustið 2011 og hafa tekist vel til, en rúmlega 90% 12 ára stúlkna hér á landi voru bólusett í vetur.  Í einhverjum tilvikum hafa foreldrar mögulega kosið að láta bólusetja dætur sínar með hinu bóluefninu sem kemur til greina, en þá þurfa þeir að greiða sjálfir fyrir efnið. Þá hafa einhverjir valið að bólusetja stúlkurnar ekki, en að sögn Þórólfs virðist vera lítið um það.

Í nýrri bandarískri rannsókn, sem er jafnframt sú fyrsta sem gerð er eftir að bóluefni við HPV-veirunni kom á markað, kemur fram að góður árangur hafi náðst við bólusetningarnar jafnvel þó að stúlkunum hafi ekki verið gefnir allir þrír skammtarnir sem reiknað er með við þessa bólusetningu. 

Ekki stendur til að bólusetja eldri stúlkur eða drengi

Í kjölfar ákvörðunarinnar um HPV-bólusetninguna hér á landi var rætt um hvort einnig ætti að bólusetja drengi, en þeir eru aðeins bólusettir gegn veirunni í Bandaríkjunum. Veiran getur valdið fleiri krabbameinum en bara í leggöngum, þá til dæmis í endaþarmi og ytri kynfærum. Þórólfur segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að bólusetja einnig drengi hér á landi. 

Þá hefur einnig verið rætt um að bólusetja eldri stúlkur en 12 ára. Foreldrar og forráðamenn eldri stúlkna greiða sjálfir fyrir bólusetninguna, en kostnaðurinn getur numið um 80.000 kr. Þórólfur segir að breytingar séu ekki í vændum, enda hafi ekki þótt ástæða eða efni til. 

Þörf á öllum þremur skömmtunum?

Bóluefnið við HPV-veirunni var fyrst aðgengilegt árið 2006. Nýlega birtust niðurstöður bandarískrar rannsóknar á áhrifum bólusetningar gegn veirunni þar í landi, en þetta er fyrsta rannsóknin sem tekur á þessu efni. Í niðurstöðunum kemur fram að sýkingum hefur fækkað um helming eftir að bólusetningar hófust.

Tilvikunum fækkaði bæði almennt meðal stúlknanna, en þó sérstaklega meðal þeirra sem höfðu verið bólusettar. Aðeins um 20% stúlknanna sem voru bólusettar fengu alla þrjá skammtana, en mælt er með því að gefa þá alla svo bestur árangur náist. Að sögn Þórólfs fylgist embættið vel með þessum málum en haldið verði áfram að gefa skammtana þrjá þar til annað komi í ljós. 

mbl.is