Versta mamma Bandaríkjanna varar við ofverndun barna

Lenore Skenazy
Lenore Skenazy

Izzy Skenazy, níu ára gamall sonur Lenore Skenazy og eiginmanns hennar, hafði lengi suðað um að þau myndu skilja hann einhvers staðar eftir þannig að hann yrði að koma sér sjálfur heim. Loks lét Skenazy undan, fór með hann í handtöskudeild Bloomingdales stórverslunarinnar, lét hann fá kort af jarðlestakerfinu, miða í lestina, 20 dollara og nokkrar 25 senta myntir, ef ske kynni að hann þyrfti að hringja heim. Um klukkustund seinna bankaði hann upp á í íbúð þeirra á Manhattan, geislandi af ánægju og stolti.

Nokkrum vikum seinna birti Lenore pistil í New York Sunum ferðalagið og um leið varð allt vitlaust! Fjölmiðlar í Bandaríkjunum, stórir sem smáir, fjölluðu um málið, flestir hneyksluðust og viðurnefnið „versta mamma Bandaríkjanna“ festist fljótlega við hana.

Í stað þess að koðna niður snerist Skenazy til varnar og hóf baráttu gegn ofverndun barna og stanslausum hræðsluáróðri sem beint er að foreldrum. Árið 2010 kom út bók hennar Free Range Kids, Lausagöngukrakkar, sem fjallar um hvernig eigi að ala upp börn án þess að farast úr áhyggjum, og hún gerði sjónvarpsþætti um sama efni. Skenazy heldur úti mjög virkum vef undir sama heiti og tvítar ótt og t(v)ítt um málefnið. Hún er líka vinsæll fyrirlesari og fyrir um viku hélt hún fyrirlestur á Velo-city 2013, ráðstefnu um samgönguhjólreiðar í Vín, sem sá sem þetta ritar sótti.

Og það var enginn venjulegur fyrirlestur. Skenazy var í senn hárbeitt og stórskemmtileg, reytti af sér brandara og sagði dæmisögur úr baráttunni gegn ofverndun með ýktu látbragði. Salurinn grenjaði úr hlátri.

Skenazy sagði að eftir lestarferðina örlagaríku hefði hún í sífellu verið spurð hvernig henni hefði liðið ef ofbeldismaður hefði rænt syni hennar á leiðinni heim. „Og auðvitað hefði mér liðið hörmulega,“ sagði hún. Líkurnar á að slíkt gerðist væru hins vegar svo litlar að það væri ekki hægt að gera sífellt ráð fyrir að það gerðist.

Eftirlit allan sólarhringinn

Skenazy benti á að það væri engu líkara en margir foreldrar héldu að börn þyrftu að hafa öryggissveit (mömmu eða pabba) til að fylgjast með þeim daginn út og inn. Gríðarleg áhersla væri lögð á eftirlit með börnum. „Og ég sem blaðamaður fór að velta því fyrir mér hvað hefði breyst. Foreldrar mínir voru ekki svona.“

Í viðtali við Morgunblaðið, daginn eftir fyrirlesturinn, benti hún á að bandarískir fjölmiðlar bæru mikla ábyrgð á þessum breytingum.

„Þegar ég ólst upp horfðu foreldrar mínar á kvöldfréttir í hálftíma í senn, þær voru ekki lengri. Ef hræðilegir harmleikir áttu sér stað var fólki ekki velt upp úr þeim. Núna er staðan sú að nánast hver Bandaríkjamaður getur nefnt tíu manns sem var rænt,“ sagði hún og taldi síðan upp tug barna sem var rænt og við hvaða kringumstæður.

„Þetta hefur gengið svo langt að Elizabeth Smart sem var rænt úr svefnherbergi sínu í Utah [árið 2002], er núna mannráns-fréttaritari ABC-sjónvarpsstöðvarinnar. Í hvert sinn sem hún birtist á skjánum rifjast mannránið upp. Og það er engu líkara en ABC líti svo á að til séu fjórir flokkar frétta; fréttir, íþróttir, veðurfréttir og mannránsfréttir!“ sagði Skenazy og fórnaði höndum. Fjölmiðlar ýttu þannig undir hugmyndir um að mannrán væru gríðarlega algeng – sem þau væru alls ekki. Það gerði síðan illt verra að fjölmiðlar lýstu ofbeldisverkunum í miklu meiri smáatriðum en áður þótti við hæfi.

Skenazy sagði að óttinn lyti ekki aðeins að möguleikanum á ofbeldi heldur einnig slysum.

„Í Bandaríkjunum er það þannig að ef eitthvað slæmt kemur fyrir einn krakka, einhvers staðar, í eitt skipti – þá eigum við öll að vera hrædd um að nákvæmlega það sama komi fyrir okkar barn. Og þetta hefur breytt samfélaginu,“ sagði Skenazy.

Of langt sé gengið í að bregðast við einstaka skelfilegum atburðum. Þannig hafi viðbrögðin við fjöldamorðunum í Sandy Hook grunnskólanum þar sem óður byssumaður myrti 20 börn og sex starfsmenn skólans – einkennst af ofsahræðslu, kvíða og heimsku.

Sérkennari sem kennt hefur lestur í sjö grunnskólum um árabil hafði samband við Skenazy og lýsti því að eftir fjöldamorðin í Sandy Hook þyrfti hún nú að gefa sig fram á skrifstofu skólanna, afhenda bíllyklana og fá í staðinn lyklakippu sem gengur að dyrum á göngum skólans.

„Og þegar hún kemur að kennslustofunni þar sem barnið er sem hún á að kenna, verður hún að banka og hvísla leyniorðinu að kennaranum í gegnum hurðina, áður en henni er hleypt inn. En hverjar eru líkurnar á að kennari sem hefur kennt í skólanum alla sína hundstíð ákveði einn daginn að taka AK-47 með sér í skólann og byrja að skjóta á allt og alla? Ég myndi segja að líkurnar væru engar. En það má ekki segja vegna þess að það er einhver hugsanlegur möguleiki á að þetta gæti mögulega gerst. Það er verið að þjálfa okkur í að hugsa alltaf fyrst um versta möguleikann, ímynda okkur það versta og láta svo sem það geti líklega gerst.“

Vantraust er hættulegt

Skenazy rekur fleiri dæmi, m.a. af barnaheimili sem var með talnalás á útidyrahurðinni. Foreldrum var sagt að ef það væri annað foreldri fyrir aftan þá í röðinni, og héldi e.t.v. á barni, skyldi það með „kurteisi og ákveðni“ loka hurðinni á nefið á því – í öryggisskyni. Svona óskiljanlegar reglur yllu því að vantraustið í samfélaginu ykist. „Og þetta hugarfar minnir mig á það sem gerðist hér,“ hvíslaði Skenazy þannig að eiginlega enginn annar í austurríska bakaríinu heyrði og vísaði augljóslega til helfarar gyðinga, en Lenore er gyðingur. Síðan hló hún. „Ég fæ hroll við tilhugsunina um að við eigum að treysta yfirvöldum, af því að börnin okkar eru í hættu, í staðinn fyrir að reiða okkur á hyggjuvitið og treysta hvert öðru. Það er ekki bara fáránlegt heldur hættulegt.“ Ástandið sé að versna og hún sjái ekki hvernig hægt sé að breyta því.

Sé brotið gegn börnum á einhvern hátt hlusti fáir á þau rök að almennt séu börn örugg en hræðilegir atburðir geti gerst. „Í staðinn fáum við leiðbeiningar eins og þessar: Aldrei hleypa barninu þínu einu út. Ekki láta það úr augsýn. Ef þú verður að sleppa af því sjónum, vertu viss um að það sé í hópi með öðrum börnum. Athugaðu hvort barnið geti verið í tómstundastarfi eftir skóla, þegar hættan á barnsránum er mest.

Vinkona mín heyrði leiðbeinanda á sjálfsvarnarnámskeiði fyrir börn, 12 ára og yngri, segja þeim að tala aldrei við fullorðna nema viðkomandi hefði verið boðið í kvöldmat á heimilið. Bíddu nú við – það á eiginlega við um alla! Svona leiðbeiningar eru rugl. Mætti ekki alveg eins segja fólki að sofa ekki eitt í svefnherbergi – því börnum hefur jú verið rænt úr svefnherbergjum?“

Ekkert megi til spara í leitinni að algjöru öryggi. „Það er barnalegt að halda að fólk geti verið algjörlega öruggt en þessi hugmynd er sterk í Bandaríkjunum og er að skjóta upp kollinum víðar.“ Hún varar við afleiðingunum. Með því að líta á börn sem brothættar styttur sé gert lítið úr þeim og það spilli sambandi foreldra við börnin.

Hinn valkosturinn sé að sleppa af þeim höndunum. Leyfa börnunum að vera frjáls. „Því þau hafa rétt á að eiga barnæskuna í friði.“

Lenore Skenazy
Lenore Skenazy Skjáskot/Youtube
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert