Heimilislausir tíðir gestir í fangelsi

„Við leyfum öllum að gista ef við höfum pláss til þess. Stundum þurfum við þó að vekja þá og vísa þeim út til að setja inn einhverja krimma,“ segir Jóhann Karl Þórisson, aðalvarðstjóri á lögreglustöð 5 í Reykjavík og yfirmaður fangageymslu, um heimilislaust fólk sem óskar eftir gistingu í fangageymslum á nóttinni.

Ástandið hefur snarversnað undanfarið

„Það er mjög misjafnt hve margir koma, en oftast koma einhverjir á hverju kvöldi, hvort sem það er einn eða átta,“ segir Jóhann Karl og bætir við að þetta hafi snarversnað undanfarið og líkast til aldrei verið verra. Mest hafa komið átta til að gista yfir eina nótt. 

„Oft eru þetta góðkunningjar lögreglu sem koma aftur og aftur, en nú eru einnig að koma fjölmörg ný andlit sem við höfum aldrei séð áður,“ segir Jóhann Karl sem segir þá sækja mikið inn enda hefur verið einstaklega kalt og veðrað illa síðustu mánuði.

Yfirleitt er pláss fyrir útigangsmennina til að gista en þeir fá sjaldnast að gista á föstudags- og laugardagskvöldum. „Þá fyllum við vanalega fangageymslurnar af fólki úr miðbænum, svo þeir koma hingað á virkum dögum og vita að þá er oftast laust.“

Konurnar biðja sárasjaldan um gistingu

Að sögn Jóhanns Karls eru dvalargestirnir eiginlega alltaf heimilislausir karlmenn og það sé sárasjaldan sem kona biður um gistingu.

Á fyrstu fjórum mánuðum ársins heimilislausum karlmönnum vísað frá Gistiskýlinu í Reykjavík í 111 tilvikum vegna plássleysis. Á sama tíma í fyrra var heimilislausum vísað 24 sinnum frá af sömu ástæðu. Það er augljóst að fjöldi heimilislausra hefur fjölgað verulega og segir Jóhann Karl að þeir finni verulega mikið fyrir fjölguninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert