„Hjálpum litlu verunni að þroskast“

Rósa Jóna Hagbarðsdóttir
Rósa Jóna Hagbarðsdóttir

„Þetta var vægast sagt mjög dramatískt. Við fjölskyldan tökum að okkur þetta hlutverk, stöndum saman og hjálpum þessari litlu veru að þroskast og fá þá hlýju sem hún þarf til að dafna,“ segir Hjörleifur Valsson, föðurbróðir Rósu Jónu Hagbarðsdóttur, sem bjargað var úr móðurkviði eftir sjö mánaða meðgöngu en móðir hennar, Guðrún G. Sigurðardóttir, lést eftir hjartastopp og var jarðsungin í Noregi í gær.

Nýfædda stúlkan braggast fljótt

„Það hvarflaði aldrei að nokkrum manni að hún myndi braggast svona fljótt. Það sýnir okkur hvað náttúran er öflug og ungviðið ótrúlegt,“ segir Hjörleifur.

Rósa Jóna sýnir engin merki þess ennþá að hafa skaðast, teknar voru sneiðmyndir af heilanum sem virðist vera í lagi, segir Hjörleifur. Hún verður a.m.k. í tvo mánuði til viðbótar á spítalanum í Noregi.  

Hagbarður Valsson, faðir stúlkunnar, eyðir öllum sínum tíma hjá henni á spítalanum. Í sumar munu systkini hennar þrjú dvelja á Íslandi.   

„Þetta er erfitt því Hagbarður hefur verið sjálfstætt starfandi. Þegar menn vinna þannig eru réttindi þeirra takmörkuð en það er verið að kanna réttindi hans,“ segir Hjörleifur en söfnun er hafin til styrktar fjölskyldunni.

Frétt mbl.is: Syrgja móður en gleðjast yfir barninu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina