„Liggur mest á að vanda sig“

„Þetta er verkefni sem að liggur mest á að vanda sig og ég mun passa upp á það að næstu skref verði vandlega skoðuð,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um tillögur ráðgjafahóps um lagningu særaforkustrengs. Fjölmörgum spurningum sé enn ósvarað.

Ráðgjafarhópurinn var samhljóða í sinni ályktun að það þurfi frekari upplýsingar til að unnt sé að fullyrða um þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja sæstreng milli Íslands og Bretlands. Lagt er til að haldið verði áfram að kortleggja alla þætti verkefnisins hér innanlands um leið og leitað verði svara um möguleg rekstrar- og eignarhaldsmódel hjá viðsemjendum í Bretlandi.

Hafa meiri upplýsingar en áður

„Nú erum við með meiri upplýsingar um þetta heldur en við vorum með áður. Nefndin gerir tillögur um næstu skref, m.a. til að eyða þeirri óvissu um þau atriði sem þau geta ekki fullyrt um. Það er ekki hægt að fullyrða á þessu stigi hvort að verkefni sem þetta sé þjóðhagslega hagkvæmt. Fyrir því eru ákveðnar forsendur sem er þá næsta skref að athuga og kanna frekar,“ segir Ragnheiður Elín.

„Síðan eru náttúrulega fjölmörg atriði varðandi orkuöflun og orkunýtingu. Spurningar sem við þurfum að svara hér innanlands. Ef af þessu verkefni yrði þá tekur það mikla orku - erum við tilbúin að virkja hana og dreifa henni með línum,“ segir ráðherra og bætir við að þarna sé um að ræða ýmis álitamál sem tengjast umræðunni um orkunýtingu.

Næstu skref ekki tekin í neinni tímapressu

Spurð út í tímasetningar segir ráðherra: „Ég ætla ekki að setja neina tímapressu á þetta. Þetta er verkefni sem að liggur mest á að vanda sig og ég mun passa upp á það að næstus skref verði vandlega skoðuð og ekki tekin í neinni pressu,“ segir Ragnheiður.

„Ég var að fá skýrsluna í hendur og við munum leggjast yfir þetta núna. En það eru þarna fjölmörg álitamál, fjölmargar spurningar sem eftir á að svara og við skoðum það í framhaldinu,“ sagði ráðherra að lokum.

Ráðgjafarhópurinn var settur á laggirnar fyrir réttu ári síðan af iðnaðarráðherra til að kanna nánar þann möguleika að leggja sæstreng fyrir raforku milli Íslands og Evrópu. Slík framkvæmd hefur um nokkurt skeið verið talin tæknilega möguleg og eru vísbendingar um að hún geti skilað nægjanlegri hagkvæmni.

Hópurinn var skipaður aðilum frá öllum þingflokkum, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Neytendasamtakanna, Landssamtökum lífeyrissjóða, Landsneti, Landsvirkjun, Samorku og Náttúruverndarsamtökum Íslands. Gunnar Tryggvason var formaður hópsins.

Haldið verði áfram með athugun sæstrengs

Forsendur enn of veikar

Nánar á vef ráðuneytisins

mbl.is