Hægt að leika sér í hrikalegu landslagi

Leiðsögunám í ævintýraferðamennsku snýst um þá hlið ferðmennskunnar sem er …
Leiðsögunám í ævintýraferðamennsku snýst um þá hlið ferðmennskunnar sem er líkamlega krefjandi og ævintýraleg, líkt og fljótasigling, sjókajakróður, ísklifur og fjallamennsku svo fátt eitt sé nefnt.

„Ævintýraferðamennska er farin að sækja gríðarlega í sig veðrið. Eins og umræðan hefur verið undanfarið um öryggis- og umhverfismál í ferðamennsku þá öskrar iðnaðurinn eftir meiri menntun leiðsögumanna. Aukin krafa er um fagmennsku allra þeirra sem taka á móti ferðafólki,“ segir Ragnar Þór Þrastarson, verkefnastjóri nýs leiðasögunáms í ævintýraferðamennsku sem hefst í haust í Keili.  

Leiðsögunámið er í samstarfi kanadíska háskólann, Thompson Rivers University (TRU) og sem hefur verið leiðandi í leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku um árabil. Íþróttaakademía Keilis sér um að framkvæma kennsluna en námsfyrirkomulagið og kennsluefnið er alfarið komið frá TRU. Námið er diplómanám og fer fram á ensku. Sjá nánar á heimasíðu Keilis.  

Námið snýst um þá hlið ferðmennskunnar sem er líkamlega krefjandi og ævintýraleg, líkt og flúðasiglingar, sjókajakróður, ísklifur og fjallamennsku svo fátt eitt sé nefnt. 

Menntunin fækkar óhöppum 

„Þeir sem koma nýir inn með þessa menntun koma með betri grunn en þeir sem hafa jafnvel gert þetta í tuttugu ár og þurft að reka sig á alls kyns veggi og jafnvel lent í óhöppum. Við komum í veg fyrir það með þessari menntun þar sem nemendur ganga út með reynslu án þess að koma sér í vandræði,“ segir Ragnar Þór Þrastarson sem útskrifaðist sem leiðsögumaður í ævintýraferðamennsku frá Thompson Rivers University og verður jafnframt einn af kennurum í náminu.  

„Ferðaþjónustufyrirtæki í þessum geira eru mjög ánægð með framtakið. Þau eru raunar hissa á því að þetta hafi ekki verið gert fyrr vegna þess að hingað til hefur þjálfun leiðsögumanna verið innan fyrirtækjanna. Auðvitað eiga menntastofnanir að sjá um grunnþjálfun og síðan tekur starfsmannaþjálfun hjá fyrirtækjum við. Fyrirtækin eiga ekki að þurfa að standa straum að kostnaðinum frá a til z.“

Námskeiðin sem nemendur taka í náminu eru margþætt m.a. gönguleiðsögn, skriðjöklaleiðsögn, straumvatnsbjörgun, þverun straumvatna og sérhæfð skyndihjálp. Í bóklega hluta námsins er farið yfir fræðin á bak við leiðtogahátt, heimspekileg og lagaleg sjónarhorn, hver staða leiðsögumanns innan hópsins er, svo fátt eitt sé nefnt.

Landslag Íslands býður upp á ævintýraferðamennsku 

„Þetta er það sem Ísland ætti að horfa meira til því við erum með landslagið fyrir svona ferðamennsku, jökla, ár og hrikalegt landslag sem hægt er að leika sér í. Þetta er dýrari ferðamennska ef við erum að tala um heildina,“ segir Arnar Hafsteinsson formaður íþróttadeildar Keilis. Markmiðið er að fá einnig erlenda stúdenta í námið.  

„Náttúruverndarsjónarmiðin eru gríðarlega mikil í þessu. Leiðsögumennirnir eru meðvitaðir um náttúruna því þetta er þeirra vinnustaður. Þessi bransi á heimsvísu er gríðarlega verðmætur og Íslendingar ættu að taka meira til sín á þessu sviði.“

Kynningarfundur um nýtt leiðsögunám í ævintýraferðamennsku (Adventure Sport Certificate) verður haldinn á þriðju hæð í höfuðstöðvum ÍSÍ í Laugardal fimmtudaginn 27. júní kl. 19:00.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert