Sækýrnar syntu yfir Ermarsundið

Sækýrnar kampakátar og komnar um borð í bát á Ermasundi …
Sækýrnar kampakátar og komnar um borð í bát á Ermasundi eftir sundið.

Sækýrnar náðu markmiði sínu í nótt og syntu yfir Ermarsundið á tímanum 19:32.08. Þær eru fyrsti íslenski boðsundshópurinn sem samanstendur aðeins af konum sem náð hefur þessum árangri.  

„Tilfinningin er alveg frábær og þetta er búið að vera algjört ævintýri. Það er gaman sjá hvað fólk hefur sýnt þessu mikinn áhuga,“ segir Sigrún Þuríður Geirsdóttir, ein úr boðsundshópi Sækúnna.   

Sundið gekk vel en mikill straumur setti strik í reikninginn, einnig var sjórinn aðeins kaldari en reiknað hafði verið með. Þær skiptust á að synda í klukkutíma í senn.  „Við vorum vel undirbúnar og það kom sér vel og við tókum vel á því í lokasprettinum.“

„Það er gaman að segja frá því að ein úr hópnum, Kristín, fagnaði fimmtugsafmæli sínu í sjónum.“

Sækýrnar stefndu að því að synda til baka en tóku sameiginleg ákvörðun um að enda sundið með stæl við Ermasundið. Þær koma heim um helgina. 

Þær voru kampakátar að sundi loknu og sungu lagið „Sjóhatturinn“ eins og sjá má á Facebook-síðu þeirra. Fjölmargir fylgjast með ferð kvennanna og hafa margir sent Sækúnum kveðju í gegnum Facebooksíðu þeirra. 

Sækýrnar á Facebook 

Frétt mbl.is: Sækýrnar nálgast Frakkland

Frétt mbl.is: Sækýrnar hefja sundið

Frétt mbl.is: Voldugar Sækýr synda Ermarsund

mbl.is