Fyrstir til að ættleiða barn

Sindri Sindrason sjónvarpsmaður á Stöð 2.
Sindri Sindrason sjónvarpsmaður á Stöð 2.

Sindri Sindrason og eiginmaður hans eru fyrsta samkynhneigða parið hér á landi sem ættleiðir barn. „Mér leið strax eins og hún væri okkar,“ segir Sindri. Hjónin hefðu fundið sér staðgöngumóður erlendis ef kerfið hér á landi hefði brugðist.

Þetta kemur fram í frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag.

„Um leið og hún kom til okkar í fóstur leið mér eins og hún væri okkar. Ættleiðingin tók rúmt ár að ganga í gegn, sem er reyndar methraði,“ segir Sindri.

Emilía Katrín kom til hjónanna í byrjun árs 2012, þá rúmlega þriggja ára. Hún er nú fjögurra og hálfs árs. Sindri og eiginmaður hans höfðu sótt um að fá fósturbarn hjá barnaverndaryfirvöldum haustið 2011 og fengu samþykki eftir mikla og nákvæma skoðun á högum sínum.

„Það er ekki auðvelt fyrir karlmenn í okkar stöðu að eignast börn,“ segir hann. „En sem betur fer ætla stjórnvöld að lögleiða staðgöngumæðrun. Ef þetta hefði ekki gengið hér hefðum við farið til Indlands eða annað til að finna okkur staðgöngumóður. Það er alveg ljóst.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka