Andri fréttastjóri á Fréttablaðinu

Heiddi /Heiðar Kristjánsson

Andri Ólafsson og Sigríður B.Tómasdóttir hafa verið ráðin fréttastjórar á Fréttablaðinu eftir skipulagsbreytingar sem kynntar voru hjá 365 í dag. Andri var áður vaktstjóri á fréttastofu Stöðvar 2. Tveimur fréttastjórum blaðsins var sagt upp störfum í dag. Þá var tveimur ljósmyndurum einnig sagt upp störfum, annar þeirra starfaði í myndvinnslu. Samkvæmt heimildum mbl.is var einum blaðamanni Fréttablaðsins einnig sagt upp sem og umbrotsmanni.

Breki Logason verður fréttastjóri Stöðvar 2 og Karen Kjartansdóttir varafréttastjóri. Kristján Hjálmarsson hefur tekið við starfi fréttastjóra á Vísi.

Engar breytingar verða á stöðu Ólafs Stephensens, ritstjóra Fréttablaðsins og Mikaels Torfasonar sem er aðalritstjóri 365.

Starfsmannafundi á 365, þar sem skipulagsbreytingarnar voru kynntar, er nú lokið. Samkvæmt heimildum mbl.is kom þar fram að hagræðingaraðgerðum á miðlunum, sem unnið hefur verið að undanfarnar vikur, sé lokið. Ekki kom fram hversu mörgum var sagt upp í dag. 

„Bræða saman hópana“

„Þetta er ákveðinn lokahnykkur á sameiningu og hagræðingu fréttastofu 365,“ segir Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins í samtali við mbl.is. Meðal þeirra skipulagsbreytinga sem nú hafa verið gerðar er að setja saman tvo hópa fréttamanna. Annar hópurinn mun fyrst og fremst einbeita sér að fréttaöflun fyrir Fréttablaðið og Stöð 2 en hinn hópurinn vinna fréttir í alla miðla 365.

„Við sjáum strax að sameining og samvinna miðlanna síðustu vikna hefur skilað heilmiklum árangri og ætlum að halda áfram á þeirri braut,“ segir Ólafur en að það taki tíma að læra ný vinnubrögð og „bræða saman hópana sem eru vanir að vinna fyrir mismunandi miðla.“

Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins.
Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins.
mbl.is

Bloggað um fréttina