Refsiaðgerðir innan mánaðar?

Frá Þórshöfn í Færeyjum.
Frá Þórshöfn í Færeyjum. Árni Sæberg

„Við hittum fyrir í dag sjávarútvegsstjóra sem er mjög ákveðinn í að fylgja eftir skuldbindingum sínum um að stöðva óábyrga hegðun Færeyinga sem hefur bein skaðleg áhrif á starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækja innan Evrópusambandsins. Við erum sérstaklega ánægð með að sjávarútvegsstjórinn hefur hafið vinnu sem miðar að því að gripið verði til refsiaðgerða gegn Íslandi og Færeyjum vegna makríldeilunnar.“

Þetta er haft eftir Gerard van Balsfoort, formanni Northern Pelagic Working Group, á fréttavefnum Worldfishing.net í gær en fulltrúar uppsjávarútgerða innan Evrópusambandsins funduðu í gær með Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra sambandsins, um einhliða kvótaúthlutun Færeyja í norsk-íslenska síldarstofninn og makríldeiluna. Evrópusambandið hefur þegar lýst því yfir að gripið verði til refsiaðgerða gegn Færeyingum vegna síldveiða þeirra en hefur hins vegar ekki tilkynnt um að gripið verði til refsiaðgerða vegna makríldeilunnar þrátt fyrir mikinn þrýsting frá hagsmunaaðilum og stjórnmálamönnum innan sambandsins.

Fram kemur í fréttinni að fulltrúar uppsjávarútgerða séu sannfærðir um að fyrirhugaðar refsiaðgerðir gegn Færeyingum vegna norsk-íslenska síldarstofnsins verði einnig látnar ná til meðafla og þar með talið makríls. Einnig hefur verið þrýst á um að aðgerðirnar nái til lax á þeim forsendum að fiskimjöl úr síld og makríl sé nýtt í Færeyjum sem fóður í laxeldi. Þá telji fulltrúarnir eftir fundinn með Damanaki að gripið verði til refsiaðgerða gegn Færeyingum innan mánaðar.

Frétt Worldfishing.net

mbl.is