Margir vilja fækka vinnutímum

Starfsfólk á vinnumarkaði telur sig eiga gott með að tvinna …
Starfsfólk á vinnumarkaði telur sig eiga gott með að tvinna saman fjölskyldulíf og atvinnu, en engu að síður vilja margir fækka vinnustundum og lækka starfshlutfall. mbl.is/Styrmir Kári

„Fyrsta tilgátan var að fólki þætti erfitt að samræma fjölskyldulíf sitt og atvinnu vegna þess hvernig vinnumarkaðurinn er; hér er mikil atvinnuþátttaka hjá báðum kynjum og vinnuvikan löng,“ segir Ragnheiður G. Eyjólfsdóttir sem nýverið skilaði M.Sc. ritgerð sinni um hversu vel starfsfólki á íslenskum vinnumarkaði gengi að samræma fjölskyldulíf og atvinnu.

„Kveikjan að verkefninu var styrkur sem var auglýstur til lokaverkefnis af Jafnréttisstofu. Þetta efni skiptir fólk svo miklu máli; hvernig því gengur að púsla saman fjölskyldulífi og vinnu. Ég greip efnið frá Jafnréttisstofu, sem auglýsti styrkinn, en það smellpassaði við mitt nám í stjórnun og eflingu mannauðs.“

Hún vann tillögu og lokaverkefninu og sendi inn í samstarfi við kennara í deildinni, dr. Auði Önnu Arnardóttur, sem varð síðan leiðbeinandi Ragnheiðar við verkefnið. „Hún var stödd í Ástralíu allan tímann svo við vorum í fjarsambandi, sem var mjög skemmtilegt. Tímamismunurinn vann eiginlega með okkur, frekar en hitt; ég sendi henni efni á kvöldin og á morgnanna hafði hún sent mér til baka.“

Ragnheiður segir niðurstöðurnar hafa komið sér á óvart. „Auk þess hvernig vinnumarkaðurinn er úr garði gerður eru barneignir hér vel yfir OECD meðaltalinu þannig að þetta ætti allt að auka flækjustigið,“útskýrir hún. „Fólk segir samt að því gangi ágætlega að samræma fjölskyldulíf og vinnu, en þrátt fyrir það segjast 40% myndu vilja fækka vinnustundum og 22% segjast vilja lækka starfshlutfall.“ Þá fannst fólki það helst skorta tíma til að sinna börnum sínum og áhugamálum, en skorta orku til að mennta sig frekar. „Börnin skoruðu lægst í spurningunni um í hvað fólk skorti orku, þannig að fólki finnst það greinilega ekki skorta orku til að vera með börnunum sínum heldur tíma.“

Nálgast má ritgerðina hér.

Ragnheiður G. Eyjólfsdóttir
Ragnheiður G. Eyjólfsdóttir
mbl.is