„Kemur mér ekkert á óvart“

Ólína Þorvarðardóttir telur að aðlaga þurfi lög um ráðherraábyrgð og …
Ólína Þorvarðardóttir telur að aðlaga þurfi lög um ráðherraábyrgð og Landsdóm breyttum samfélagsháttum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það kemur mér ekkert á óvart þótt stjórnmálamönnum standi stuggur af Landsdómi vegna þess að meðan Landsdómur er við lýði er alltaf sá möguleiki til staðar að stjórnmálamenn þurfi að standa fyrir máli sínu gagnvart honum, en ekki bara gagnvart dómstóli götunnar, sem er alltaf miklu óljósari heldur en jafn sérhæfður dómstóll og Landsdómur,“ segir Ólína Þorvarðardóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, um fyrirætlanir Bjarna Benediktssonar um að leggja niður Landsdóm.

„Það má að mínu viti alveg breyta lögunum um Landsdóm og líta þar til reynslunnar af eina skiptinu sem lögunum hefur verið beitt. Hins vegar tel ég að það sé óþarfi að leggja Landsdóm niður vegna þess að þær stundir geta komið upp í sögu þjóða að það þurfi að láta stjórnmálamenn standa skil sinna gjörða.“

Ólína telur lögin vera barn síns tíma. „Landsdómur getur átt fullan rétt á sér ef lögin um hann eru í samræmi við samtímann hverju sinni. Það þyrfti að uppfæra bæði lögin um ráðherraábyrgð og lögin um Landsdóm til samræmis við breytta samfélagshætti.“

„Kosningar eru auðvitað endanlegt úrslitavald um það hvort menn hafi umboð til að sitja sem fulltrúar þjóðarinnar við ríkisstjórnarborðið en þau atvik geta komið upp að það þurfi með yfirvegaðri hætti heldur en í kosningum að gera mál upp og meta það sem gerst hefur. Það er auðvitað alltaf ákveðin hætta á að menn fari í pólitísk réttarhöld en þar veldur hver á heldur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert