Vilja gera Snowden að íslenskum ríkisborgara

Edward Snowden.
Edward Snowden. AFP

Sex þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um að bandaríska uppljóstraranum Edward Snowden verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur.

Fyrsti flutningsmaður er Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, en meðflutningsmenn eru samflokksmenn hans Birgitta Jónsdóttir og Jón Þór Ólafsson ásamt Ögmundi Jónassyni, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Helga Hjörvar, þingmanni Samfylkingarinnar, og Páli Val Björnssyni, þingmann Bjartrar framtíðar.

„Flutningsmenn leggja til að Edward Joseph Snowden fái íslenskan ríkisborgararétt nú þegar en skv. 6. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, veitir Alþingi ríkisborgararétt með lögum,“ segir í greinargerð með frumvarpinu sem annars hljóðar svo: „Ríkisborgararétt skal öðlast: Snowden, Edward Joseph, f. 21. júní 1983 í Bandaríkjunum. [...] Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Snowden er talinn vera staddur á alþjóðaflugvelli í Moskvu en hann hefur sótt um pólitískt hæli í fjölda ríkja. Þeirri beiðni hefur víða verið hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert