„Lítið líf sem mátti bjarga“

Rósa Jóna var mjög veikburða þegar hún fæddist.
Rósa Jóna var mjög veikburða þegar hún fæddist. Viðar Hákon Gíslason

Guðrún Guðmunda Sigurðardóttir var gengin sjö mánuði á leið með fjórða barn sitt þegar hjarta hennar stöðvaðist að kvöldi 12. júní. Guðrún var heima í íbúð sinni í Ósló er atvikið átti sér stað. Gerður var bráðakeisaraskurður á stofugólfinu til að reyna að bjarga lífi hennar en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst ekki að stöðva miklar innvortis blæðingar og lést hún á sjúkrahúsi snemma morguninn eftir. Öllum að óvörum lifði stúlkubarnið hins vegar af og braggast nú ágætlega að sögn unnusta hennar, Hagbarðs Valssonar. Hann sagði blaðamanni mbl.is frá því hvernig hann og börnin þrjú takast á við missinn og bjóða nýjan fjölskyldumeðlim velkominn.

„Við höfum það bara bærilegt, við erum þó nokkuð sterk held ég. Stóru krakkarnir, 11 og 13 ára, eru ofsalega dugleg. Maður verður að vera sterkur fyrir alla og þá verða þau það líka, þau spjara sig bara vel. Lífið verður að halda áfram sinn vanagang og við reynum að hafa allt eins eðlilegt og hægt er,“ segir Hagbarður.

Guðrún var aðeins 34 ára að aldri. Hún var að svæfa yngsta barn þeirra hjóna rétt fyrir klukkan átta á miðvikudagskvöldi þegar hún veiktist. „Hún byrjaði að hósta og kúgast. Hún átti við meltingartruflanir að stríða og gat þess vegna fengið brjóstsviða og kúgast stundum. Mér fannst hljóðið í henni samt dálítið öðruvísi en áður og þegar ég kom að athuga með hana var hún dottin í gólfið á litlum gangi milli svefnherbergjanna. Hún andaði þá en ég náði engu sambandi við hana og meðan ég var í símanum við Neyðarlínuna hætti hún að anda.“

Hagbarður hringdi fyrst af öllum í móður Guðrúnar, sem býr rétt hjá þeim. „Hún er það yfirveguð kona að ég vissi að hún gæti höndlað það að koma. Hún var komin innan nokkra mínútna og um leið og ég hafði talað við hana hringdi ég í Neyðarlínuna. Svo var ég að reyna að færa Guðrúnu, koma henni í læsta hliðarlegu og halla höfðinu aftur en þetta var þröngur gangur og erfitt að færa hana, enda var hún kasólétt og alveg líflaus. Ég fékk því hjálp hjá manni sem við leigjum hjá og býr fyrir neðan okkur. Hann kom upp og hjálpaði mér við að snúa henni. Þá hætti hún að anda. Við byrjuðum hjartahnoð og héldum því áfram þar til sjúkraliðarnir komu.“

Sex sjúkrabílar, tveir svæfingarlæknar og þyrla

Fyrstu sjúkraliðarnir voru fimmtán mínútur að koma á staðinn og segir Hagbarður viðbrögðin hafa verið gríðarlega góð. „Það komu sex sjúkrabílar, tveir svæfingarlæknar og þyrla, sem sveimaði yfir en náði ekki að lenda vegna slæms skyggnis og rigningar. Viðbrögðin voru meiriháttar og sýndi norska heilbrigðiskerfið í sínu besta ljósi.“

Læknum tókst ekki að koma hjarta Guðrúnar aftur af stað og ákváðu því að taka barnið með bráðakeisaraskurði á stofugólfinu til að reyna að bjarga Guðrúnu. „Mér finnst þeir hafa sýnt hugrekki er þeir tóku þessa ákvörðun og þeir eiga mikið hrós skilið. Þeir reiknuðu ekki með því að fóstrið myndi lifa, enda var það líflaust þegar það kom í heiminn. Þeir hnoðuðu samt lífi í það, sem tók tvær mínútur og hún sýndi furðugóð viðbrögð; hún andaði sjálf og hjartað sló þannig að þá skildu þeir, sér að óvörum, að þarna væri lítið líf sem þær gætu bjargað.“

Nauðsynlegt að vera yfirvegaður

Barnið, sem reyndist vera stúlka, kom í heiminn klukkan 22 mínútur yfir átta að kvöldi og fljótlega eftir það tókst að koma hjarta Guðrúnar aftur af stað. Voru þær mæðgur fluttar með hraði upp á sjúkrahús. „Læknarnir sem fóru með Guðrúnu sögðu að þeir þyrftu að vinna í henni í að minnsta kosti tvo tíma þannig að ég talaði bara við krakkana heima og kom því þannig fyrir að það yrðu einhverjir hjá þeim,“ segir Hagbarður, en tvö barnanna, Rakel María, 13 ára og Regína Rós, 2ja ára, voru heima þegar Guðrún veiktist.

„Það var dálítið gott að þeim tókst að lífga Guðrúnu við aftur því þá gat ég sagt við krakkana að hún væri veik, hjartað hefði stoppað en væri farið í gang aftur og læknarnir væru að reyna að hjálpa henni. Það dempaði fyrsta sjokkið hjá þeim, þau gátu sofið rólegar. Ég fór í sturtu, skipti um föt og fór svo niður á spítala. Maður verður að hugsa rökrétt, þetta er auðvitað rosalega óraunverulegt en það er um að gera að vera kaldur og yfirvegaður þegar svona gerist. Það þýðir ekkert að panikka, maður tekur það bara út seinna.“

Á spítalanum voru gerðar tvær aðgerðir á Guðrúnu, en allt kom fyrir ekki. „Þeir börðust við að halda henni á lífi alla nóttina og gerðu á henni tvær aðgerðir. Henni blæddi gríðarlega og læknunum tókst ekki að ná stjórn á blæðingunum og ná blóðþrýstingnum upp. Hann kolféll svo um morguninn hún dó rétt fyrir klukkan sex.“

Ítrekað lögð inn á spítala

Hagbarður segir meðgönguna ekki hafa gengið klakklaust fyrir sig. „Öll börnin okkar hafa fæðst mjög stór; fyrsta barnið var 4,9 kíló og það þriðja var 5,5. Guðrún varð strax mjög stór á þessari meðgöngu og þetta varð strax mikið álag á líkamann. Hún fór þrisvar sinnum á Ahus-sjúkrahúsið og var þar af tvisvar sinnum lögð inn, fyrst í febrúar.“

Ástæðan var blóð sem safnaðist upp milli móðurlífsins og fósturbelgsins sem lak niður við þrýsting á magann. „Blóðið kom ekki úr móðurlífinu og hafði engin áhrif á fóstrið, læknarnir gátu ekki útskýrt af hverju þetta gerðist. Þeir töldu ekki ástæðu til að veita því burt því það gæti skapað meiri hættu. Í síðasta skiptið sem hún fór var hún ekki lögð inn yfir nótt heldur send heim.“

Hjálpar engum að leita að sökudólgum

Aðspurður hvort hann hafi það á tilfinningunni að þarna hafi verið gerð læknamistök segir hann svo ekki vera. „Mig langar ekki til að hugsa þannig vegna þess að það gagnast engum. Ég mun fylgjast vel með því hvað orsakaði hjartastoppið, læknir sem ég hef talað við hefur stungið upp á því að eitrað fósturvatn gæti hafa farið út í blóðið og orsakað blóðtappa. Þegar krufningarskýrslan kemur mun ég svo bara spyrjast fyrir um hvort eitthvað hefði verið hægt að gera öðruvísi, en ég er alls ekki í þeim bransa að benda á fólk og kenna einhverjum um. Þetta er alveg nógu leiðinlegt og sorglegt og nóg annað við kraftinn að gera heldur en að leita að sökudólgum. Það hjálpar engum.“

„Ég skildi rosalega fljótt að þetta gæti farið mjög illa með Guðrúnu og ef ég á að segja alveg eins og er þá var Guðrún minn aðalfókus þessa nótt,“ segir Hagbarður. „Ég hugsaði minna um hvort barnið myndi lifa, það yrði bara að fara eins og það færi. Auðvitað hugsaði ég að þetta yrðu bara ég og krakkarnir þrír en áður en ég fór á spítalann fékk ég skilaboð um að litla barnið væri á lífi. Þeir sögðu strax að það liti út eins og hún myndi spjara sig, hún var ekki í krítísku ástandi lengi þannig að það komst eiginlega mjög fljótt á hreint að hún myndi lifa.“

Þakklátur fyrir gríðarlegan stuðning

Hagbarður segir stuðning frá vinum og vandamönnum, jafnt gömlum skólafélögum og bláókunnugu fólki skipta gríðarlega miklu máli. „Ég á sem betur fer rosalega marga góða að, stóra fjölskyldu og fullt af vinum og mig langar að koma á framfæri bestu þökkum til allra á Íslandi. Það hefur verið sett af stað söfnun og ég hef fengið margar samúðarkveðjur, símtöl, tölvupósta og sms frá allskonar fólki; ættingjum, gömlum skólafélögum og fólki sem ég þekki eiginlega ekkert. Ég met þetta rosalega mikils, það er ofboðslega gott að finna þennan stuðning og hann hjálpar ótrúlega.“

Laumubjartsýnn, þrátt fyrir óvissu um framhaldið

Hagbarður segir stúlkunni ganga bærilega að braggast. „Hún var rosalega veikburða og vöðvamassinn mjög lítill. Hún gat ekki kyngt og hafði enga sogþörf svo hún fékk næringu með slöngu í gegnum magavegginn. Hún hefur aðeins verið að styrkjast, í gær [þriðjudag, innsk. blm] fór hún að hreyfa tunguna í fyrsta skipti og greip aðeins í snuddu í morgun. Ég sé batamerki en það er mjög hættulegt að vera allt of bjartsýnn núna því auðvitað ríkir ennþá algjör óvissa um hvernig þetta fer. Það eina sem vitað er er að svæði í heilanum fengu ekki súrefni í einhvern tíma, en ekkert er vitað um hversu lengi súrefnisskorturinn varði eða hversu fljótt það grær. Það eru þó engar stórar heilaskemmdir og engar stórar blæðingar þannig að ég er svona laumubjartsýnn, má segja. Ég held að hún eigi eftir að braggast ágætlega. Við reiknum með því að hún verði á spítalanum út ágúst, hún þarf að geta fengið næringu úr pela áður en hún verður útskrifuð. Ef hún kemur heim fyrr þá er það bara bónus.“ Stúlkan dvelur nú á Ahus - Akershus háskólasjúkrahúsinu sem Hulda Gunnlaugsdóttir, fyrrverandi forstjóri Landspítalans stýrir.

Stúlkan hlaut nafnið Rósa Jóna, en Hagbarður og Guðrún vissu ekki kyn barnsins fyrir fæðinguna og höfðu því valið stráka- og stelpunöfn áður en stúlkan fæddist. „Við eigum börn sem byrja öll á R, það er nokkurs konar þema. Ég átti föðurömmu sem hét Rósa Jóna og það var eiginlega eina stelpunafnið sem við vorum með - það þyrfti að passa henni alls ekki til að við hefðum valið eitthvað annað.“

Verður notað sem dæmi í kennslu

Hagbarður segir keisaraskurð eins og þann sem framkvæmdur var á Guðrúnu vera mjög sjaldgæfan, jafnvel á heimsvísu. „Læknirinn sem gerði það hefur tvisvar sinnum komið að hitta mig á spítalanum og beðið mig um að fá að nota þetta tilvik sem dæmi. Þeir koma til með að fara í gegnum þetta, læra af þessu og nota þetta sem dæmi um að svona aðgerð sé möguleg, þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Það er bara gott ef það getur leitt eitthvað gott af sér, þannig séð.“

Allt í lagi að hlæja og leika sér

Hagbarður segir hin börnin taka nýjasta fjölskyldumeðlimnum mjög vel. Þau eru mjög spennt fyrir henni, hlakka til að fá hana heim og finnst hún vera algjört kraftaverk. Ég hef engar áhyggjur af þessum börnum mínum þannig séð, þau hafa sýnt mér hvað þau eru rosalega vel gerð.“

Hann telur mikilvægt fyrir krakkana að geta talað við einhvern um móðurmissinn, en þeim standa til boða sálfræðimeðferð og stuðningshópar. Hann segir börnin ekki vera bitur eða reið yfir því sem gerðist. „En það koma eflaust tímar þar sem þau verða það og þá verður maður bara að takast á við það. Þetta er auðvitað bara ferli, við erum ekki dottin í neinn sorgarpakka og þurfum ekkert að fylgja neinum rútínum í sambandi við sorgina heldur reynum við bara að gera það sem við viljum gera. Það er allt í lagi að hlæja, leika sér og gráta þegar maður vill. Ég reyni bara að leyfa þeim að finna að þau þurfi ekki að vera á einn eða annan hátt. Þau þurfa bara að vera góð hvert við annað, þá komumst við í gegnum allt.“

Söfnunin borgar reikningana

Hagbarður hefur starfað í lausamennsku við sjónvarpsþáttagerð en hefur lítið unnið undanfarið hálft ár vegna lægðar í bransanum og veikinda Guðrúnar. „Við vorum með plön um að myndi fara á fullt að vinna með eigin verkefni núna í haust en nú veit ég ekkert hvernig það verður, ég get auðvitað ekki orðið útivinnandi að fullu núna. Ég er í viðræðum við fyrirtæki um að reyna að hagræða því eins vel og hægt er, svo ég geti unnið mikið að heiman. Við sjáum bara hvernig það fer. Það er auðvitað hrikalegt að vera ekki með almennilegar tekjur og þurfa að treysta á framlög ríkisins, sem ég veit ekkert hversu mikil verða.“

Hann segir styrktarsöfnunina ganga vel. „Þessi söfnun hefur auðvitað gert okkur kleift að borga leigu og reikninga undanfarið þannig að ég er rólegur núna og ég held að ég þurfi ekki að hafa rosalega miklar áhyggjur næstu mánuði, allavega fram á haustið. Ég er bara endalaust þakklátur fyrir allan þann styrk sem fólk veitir mér, sama hversu mikið eða lítið það er þá er það bara frábært að fólk skuli sýna svona hlýhug.“

Táknrænt veður við útförina

Guðrún var jarðsungin síðastliðinn mánudag og jörðuð stutt frá heimili þeirra. „Athöfnin var alveg einstaklega falleg. Það var fínasta veður þar til við bárum út kistuna, þá kom hellidemba í tvær mínútur, sem var mjög táknrænt. Það voru rosalega margir sem mættu og vottuðu Guðrúnu virðingu sína, fullt út úr dyrum og fólk stóð bæði á ganginum og fyrir utan. Enda var engum illa við hana, hún var einstaklega góð og blíð og það var eiginlega ekki hægt að líka ekki við hana.“

Guðrún margra missir

Hagbarður segist hafa gott tengslanet í Noregi, bæði fjölskyldu og vini. Hann hefur búið þar í 25 ár og kynntust þau Guðrún þegar hún fór sem au-pair til Noregs árið 1997, en þau hafa búið þar nánast samfleytt síðan. „Það er hellingur af fólki hér til að styðja mig, ég stend ekki einn í þessu. Guðrún er líka margra missir, það hefur sýnt sig. Elsta stelpan er í gaggó, strákurinn var í 5. bekk í vetur og yngsta stelpan í leikskóla og allir foreldrar annarra barna í skólanum hafa veitt mikla hjálp, eins og margir aðrir. Til dæmis var séð gjörsamlega um erfidrykkjuna fyrir mig. Allir eru tilbúnir að hjálpa og vilja hjálpa, maður þarf bara að vera flinkur við að leyfa fólki það. Það gerir fólki gott að fá að hjálpa til.“

Hann segir fjölskylduna ekki hafa hugsað sér að flytja heim í kjölfar dauðsfallsins. „Noregur er okkar heimaland, hér eru krakkarnir í skóla og eiga sína vini. Það eru ekki margir mánuðir síðan við Guðrún vorum einmitt að tala um hvar við ættum að láta jarðsetja ef annað okkar myndi deyja. Við búum í yndislegasta hverfi sem ég hef búið í, rétt fyrir utan borgarmörk Ósló, og nú er Guðrún jörðuð stutt heiman frá okkur. Krakkarnir geta farið í göngutúra að leiðinu hennar, svo við erum ekki að fara neitt.“

---

Upplýsingar um styrktarsöfnunina má finna hér að neðan, eða á Facebook-síðu söfnunarinnar.

Norska reikningsnúmerið er 50186804187 (Dnb), umsjónarmaður er Fridenlund.

Íslenska reikningsnúmerið er 537-04-254000, kt. 140563-2429, umsjónarmaður er Hreiðar Örn Gestsson.

Frétt mbl.is: „Hjálpum litlu verunni að þroskast“

Frétt mbl.is: Syrgja móður en gleðjast yfir barninu

Frétt mbl.is: Bráðkvödd komin sjö mánuði á leið

Guðrún og Hagbarður kynntust árið 1997 þegar Guðrún starfaði sem …
Guðrún og Hagbarður kynntust árið 1997 þegar Guðrún starfaði sem au-pair í Noregi. Úr einkasafni
Sjaldgæft er að börn lifi af bráðakeisara við eins erfiðar …
Sjaldgæft er að börn lifi af bráðakeisara við eins erfiðar aðstæður. Viðar Hákon Gíslason
Fyrir áttu Hagbarður og Rósa þau Rakel Maríu, 13 ára, …
Fyrir áttu Hagbarður og Rósa þau Rakel Maríu, 13 ára, Róbert Hólm, 11 ára, og Regínu Rós, 2ja ára, Hagarðsbörn. Úr einkasafni
Systkini Rósu Jónu fæddust öll mjög stór, en Guðrún varð …
Systkini Rósu Jónu fæddust öll mjög stór, en Guðrún varð strax stór þegar hún var þunguð af Rósu Jónu og tók meðgangan mikið á líkamann. Viðar Hákon Gíslason
Guðrún G. Sigurðardóttir var aðeins 34 ára þegar hún lést.
Guðrún G. Sigurðardóttir var aðeins 34 ára þegar hún lést. Mynd af Facebook
Systkini Rósu Jónu taka henni fagnandi og þykir hún mikið …
Systkini Rósu Jónu taka henni fagnandi og þykir hún mikið kraftaverk. Úr einkasafni
Hagbarður Valsson með Rósu Jónu í fanginu
Hagbarður Valsson með Rósu Jónu í fanginu Úr einkasafni
mbl.is