Stjórnarandstaðan fékk 4 í stjórn RÚV

Sumarþingi var frestað í kvöld.
Sumarþingi var frestað í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tekist var á um það á þingfundi í nótt hvort stjórnarandstæðingar fengju þrjá eða fjóra menn í stjórn RÚV. Kosið var milli tveggja lista og varð niðurstaðan sú að stjórnarandstaðan fékk fjóra menn í stjórnina eins og hún hafði farið fram á.

Stjórnarandstæðingar sökuðu á þingfundi stjórnarliða um að hafa gengið á bak orða sinna um kosningu í stjórn RÚV. Þeim hafi verið lofað að skipting stjórnarmanna yrði 5-4, en síðar hafi komið í ljós að stjórnarflokkarnir ætluðu sér að skipa 6 menn sem þýðir að stjórnarandstaðan fengi 3.

Með breytingum á lögum um RÚV var ákveðið að fjölga stjórnarmönnum í RÚV úr 7 í 9. Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, sagðist hafa fengið þær upplýsingar að fjölgun stjórnarmanna skiptist á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Síðan hafi komið í ljós að ekki yrði staðið við þetta heldur myndu báðir stjórnarmenn koma í hlut stjórnarflokkanna. Þetta þýddi að stjórnarflokkarnir yrðu með 2/3 stjórnarmanna. Hún sagði þessa niðurstöðu dapurlega.

Sigrún Magnúsdóttir, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, sagði að málið væri sprottið af misskilningi sem hefði átt sér stað á göngum Alþingis. Hún sagðist hafa talið líklegt að fjölgun stjórnarmanna myndi skiptast á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Hún bað afsökunar á að hafa valdið þessum misskilningi.

Helgi Hjörvar sagði að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefði kippt í spotta og svikið samkomulag og gert þar með formenn þingflokkanna að ómerkingum.

Stjórnarflokkarnir hafa á bak við sig atkvæðavægi á Alþingi til að fá 6 af 9 stjórnarmönnum í stjórn RÚV. Helgi sagði nægjanlegt að einn stjórnarliði kysi með stjórnarandstöðunni til að skiptingin yrði 5-4.

Sigmundur Davíð vísað þessum fullyrðingu Helga á bug og sagðist ekkert samkomulag hafa gert og þar að leiðandi ekkert samkomulag svikið.

Steingrímur J. Sigfússon sagði að stjórnarandstaðan hefði samþykkt að fjölga í stjórn RÚV á þeirri forsendu að stjórnarmennirnir skiptust á milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Birgitta Jónsdóttir sagðist fyrr í dag hafa fengið tölvupóst frá starfsmanni þingsins um að Píratar þyrftu að tilnefna mann í stjórn RÚV. Hún sagðist hafa notað daginn í að finna óflokksbundinn mann sem hún treysti í þetta verkefni. Í kvöld hefði hún orðið að tilkynna honum að hann yrði ekki kosinn í stjórnina. Hún sagði þessa niðurstöðu ömurlega.

Kosningin endaði 37-26

Kosið var milli tveggja lista í lok umræðunnar þar sem tilnefndir voru fleiri menn en kjósa átti. Listi stjórnarinnar fékk 37 atkvæði og listi stjórnarandstöðunnar 26. Það þýddi að skiptingin varð 5-4 en ekki 6-3 eins og stjórnarliðar höfðu áformað.

Í stjórn RÚV voru kosin Guðrún Nordal, Magnús Stefánsson, Magnús Geir Þórðarson, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir og Ingvi Hrafn Óskarsson, Margrét Frímannsdóttir, Björg Eva Eva Erlendsdóttir Sigurður Björn Blöndal og Pétur Gunnarsson.

Að lokinni kosningunni var fundum Alþingis frestað fram í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert