„Væri til í tvöfaldan hamborgara“

Gunnlaugur A. Júlíusson, hlaupari.
Gunnlaugur A. Júlíusson, hlaupari. Árni Sæberg

„Það er nægur tími til að sofa þegar ég kem heim,“ sagði hlauparinn Gunnlaugur A. Júlíusson í samtali við mbl.is í morgun. Hann er nú kominn á sjöunda maraþon af tíu og hefur hlaupið í rúma tvo sólarhringa.

Gunnlaugur hefur ekki lagt sig síðan hann hélt af stað frá marklínunni við Thames-ána í London á miðvikudagsmorgun og hleypur því dag og nótt. Ef allt gengur samkvæmt áætlun ætti hann að ljúka tíunda maraþoninu á morgun og hefur þá hlaupið 420 kílómetra á rúmum þremur sólarhringum.

Væri til í tvöfaldan McDonalds

„Þetta mjakast bara eftir plani,“ segir Gunnlaugur. Gærdagurinn gekk að sögn hans ágætlega. Nokkuð hlýtt var og þyngdi það nokkuð á honum. Nóttin gekk einnig vel. „Maður var orðinn dálítið syfjaður undir morguninn,“ segir hann. „Þá settist maður bara niður, lokaði augunum eitt augnablik og þá var allt í góðu lagi.“

Í gærmorgun sagði Gunnlaugur frá því að hann hefði ekki verið nógu ánægður með heitu máltíðina sem boðið var upp á. „Í dag var aðalrétturinn nokkrar steiktar beikonsneiðar í hvítu brauði,“ segir hann. Gunnlaugur skellti sér því út í matvöruverslun til að ná sér í smánæringu. Aðspurður segist hann hvergi hafa rekist á McDonalds en tæki tvöföldum hamborgara þaðan fagnandi.

Ekki búið fyrr en þetta er búið

Um þriðjungur hlauparanna er hættur keppni, eða 12 af 37. Ef allt gengur samkvæmt áætlun mun Gunnlaugur ljúka maraþonunum 10 um miðjan dag á morgun. Hann er bjartsýnn á framhaldið en fer þó varlega í yfirlýsingar. „Lofa skal dag að kveldi,“ segir Gunnlaugur. „Þetta er ekki búið fyrr en þetta er búið.“

Frétt mbl.is: Þreifar sig áfram með vasaljósi

Frétt mbl.is: „Finn mér bekk til að halla mér á“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert