Lögreglumaðurinn sendur í leyfi

Skjáskot úr myndbandinu. Lögreglumaðurinn togar harkalega í konuna.
Skjáskot úr myndbandinu. Lögreglumaðurinn togar harkalega í konuna.

Ríkislögreglustjóri hefur mælst til þess við lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins að lögreglumaður sem myndaður var við handtöku í miðborg Reykjavíkur verði leystur undan vinnuskyldu á meðan ríkissaksóknari skoðar málið.

Eins og kom fram á mbl.is í morgun vísaði lögreglustjóri málinu til ríkissaksóknara til rannsóknar, en samkvæmt 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 fer ríkissaksóknari með rannsókn mála vegna ætlaðra brota lögreglumanna við framkvæmd starfa þeirra.

Málið kom upp í gærkvöldi þegar myndband af handtökunni var sett inn á samfélagsvefinn Facebook. Á henni má sjá lögreglumann handtaka konu í miðborg Reykjavíkur. Þykir mörgum sem lögreglumaðurinn hafi beitt konuna harðræði.

Umboðsmaður óskar eftir gögnum

Settur umboðsmaður Alþingis hefur ritað lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu bréf vegna handtökunnar en í því óskar hann eftir öllum gögnum sem liggja fyrir um handtökuna. „Ég óska í öðru lagi eftir upplýsingum um hvaða ferill innan embættisins fari í gang þegar atvik af þessu tagi koma upp. Í því samhengi óska ég eftir upplýsingum um hve oft á undanförnum fimm árum hafi komið upp atvik hjá embætti yðar þar sem reynir á álitaefni um hvort lögreglumenn hafi gengið of hart fram við handtöku og þá hvernig úr slíkum málum hafi verið leyst.“

Bréf setts umboðsmanns Alþingis til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er svohljóðandi: 

„Með vísan til framangreinds óska ég þess, sbr. 5. og 7. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis, að mér verði í fyrsta lagi afhent öll gögn sem liggja fyrir um atvikið um liðna helgi sem sést á umræddu myndskeiði. Ég óska í öðru lagi eftir upplýsingum um hvaða ferill innan embættisins fari í gang þegar atvik af þessu tagi koma upp. Í því samhengi óska ég eftir upplýsingum um hve oft á undanförnum fimm árum hafi komið upp atvik hjá embætti yðar þar sem reynir á álitaefni um hvort lögreglumenn hafi gengið of hart fram við handtöku og þá hvernig úr slíkum málum hafi verið leyst. Loks óska ég þess að í svari við erindi þessu, auk erindis míns frá 27. júní sl., verði tekin afstaða til þess hvort og þá hvernig aðgerðir lögreglumanna í þessum tilvikum hafi samrýmst þeim verklagsreglum sem lagðar eru til grundvallar í störfum embættis yðar. 

Ég óska þess að umbeðin gögn og svör berist mér ekki síðar en 24. júlí nk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert