„Okkur sýnist að þessu sé sjálfhætt“

Mynd/Samskip

„Okkur sýnist að þessu sé sjálfhætt því að þær hafnir sem hvalkjötið hefur verið flutt til eru búnar að setja bann á þessar afurðir. Þannig að okkur séu allar bjargir bannaðar í þessum efnum,“ segir Anna Guðný Aradóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa, í samtali við mbl.is spurð hvort fyrirtækið sé hætt flutningum á hvalkjöti frá Íslandi eins og komið hefur fram í fjölmiðlum.

Sex gámar af hvalkjöti sem flytja átti til Japans á dögunum í gegnum Rotterdam í Hollandi og Hamborg í Þýskalandi héldu ekki áfram ferð sinni á leiðarenda frá Hamborg þar sem tollyfirvöld létu setja þá á land á meðan kannað væri hvort gögn sem fylgdu sendingunni væru rétt samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins. Í millitíðinni fór flutningaskipið sem flytja átti kjötið áfram frá Hamborg. Þegar flytja átti síðan hvalkjötið um borð í annað flutningaskip komu Grænfriðungar í veg fyrir að það tækist með mótmælum. Búist er við að kjötið verði í kjölfarið flutt aftur til Íslands.

„Þjóðverjar hafa stöðvað þetta í Hamborg og eru að kalla eftir banni í öllum höfnum í Þýskalandi og þá er orðið mjög erfitt að koma þessu til Asíu,“ segir Anna Guðný. Langmestur flutningur fari frá Íslandi í gegnum Rotterdam og Hamborg. „Þegar aðgenginu að markaði er lokað þá er þetta orðið svolítið erfitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert