Reykjavík slíti sambandi við Moskvu

Reykjavíkurborg vill slíta sambandi við Moskvu vegna stöðu samkynhneigðra í …
Reykjavíkurborg vill slíta sambandi við Moskvu vegna stöðu samkynhneigðra í Rússlandi JANEK SKARZYNSKI

„Þetta er mjög óvenjulegt, og ég er ekki viss um að þetta hafi áður verið gert,“ segir Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, um tillögu Jóns Gnarr um að endurskoða eða slíta samstarfssamningi Reykjavíkur við Moskvu, en tillagan var lögð fram á borgarráðsfundi 11. júlí síðastliðinn.

Þar segir að í ljósi þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað á síðustu misserum í málefnum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks í Rússlandi sé borgarlögmanni, mannréttindaskrifstofu og skrifstofu borgarstjóra og borgarritara falið að koma með tillögur að breytingum á eða uppsögn samstarfssamnings Reykjavíkur og Moskvu, að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið. Urður segir að líklega sé fyrst og fremst verið að leita ráða hjá utanríkisráðumeytinu um hvaða áhrif þetta myndi hafa, þar sem ráðuneytið fer með samskipti við erlend ríki, en telur líklegt að ákvörðunin sjálf yrði hjá borginni. 

Tillagan felur í sér mótmæli gegn nýsamþykktum lögum í Rússlandi sem banna áróður fyrir samkynhneigð. Evrópuráðið hefur gefið út yfirlýsingu þar sem lögin eru gagnrýnd, en þetta yrði fyrsta raunverulega afleiðing samþykktar laganna hvað alþjóðleg samskipti varðar.

Í greinargerð með tillögunni segir að fulltrúar alþjóðlegra mannréttindasamtaka og Evrópuráðsins telji ótvírætt að ákvæði frumvarpsins gangi gegn alþjóðlegum skuldbindingum rússneskra stjórnvalda, svo sem Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og Mannréttindasáttmála Evrópu. Undir þetta taki íslensk stjórnvöld heilshugar og fulltrúar utanríkisráðuneytisins hafi áréttað við fulltrúa rússneskra stjórnvalda stuðning Íslands við réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks.

Áður hefur borgarstjóri sent bréf til Sergeys Sobyanin, borgarstjóra Moskvu, þar sem stjórnvöld voru hvött til að falla frá þeirri ákvörðun að banna Gay pride í Moskvu. Ekki var brugðist við bréfinu og telur borgarstjóri í ljósi þess eðlilegt að taka samskipti borganna til endurskoðunar.

Frétt mbl.is: Samþykktu lög gegn áróðri fyrir samkynhneigð

Frétt mbl.is: Herör skorin upp gegn samkynhneigð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert